Erlent

Árásarmaðurinn skotinn til bana af öryggisverði

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá kröfugöngu nemenda í Washington DC um helgina.
Frá kröfugöngu nemenda í Washington DC um helgina. Vísir/AFP
Vopnaður nemandi sem særði tvo aðra nemendur í skóla í Maryland í dag, var skotinn til bana af öryggisverði í skólanum. Ein stúlka sem árásarmaðurinn skaut er í alvarlegu ástandi og einn drengur er sömuleiðis á sjúkrahúsi en þó minna særður. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að árásarmaðurinn hafi skotið á öryggisvörðinn en ekki hæft hann.

Great Mills, þar sem árásin átti sér stað er í um hundrað kílómetra fjarlægð frá Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna.

Lögreglan sendi frá sér skilaboð á Twitter um leið og tilkynning barst um að foreldrar ættu ekki að fara í skólann. Þá segist lögreglan hafa náð tökum á ástandinu tiltölulega fljótt.

Um 1.600 nemendur eru í skólanum, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Lögreglan segir að tveir táningar hefðu verið handteknir í síðasta mánuði fyrir að hóta skotárás og sömuleiðis hefði 39 ára maður verið handtekinn vegna svipaðs máls skömmu seinna. Eftir leit á heimili annars drengjanna fann lögreglan fjölda skotvopna.

Nú undanfarið hafa nemendur víða um Bandaríkin tekið þátt í kröfugöngum og krefjast þess að lög um eign skotvopna yrðu hert. Það var gert í kjölfar þess að sautján létu lífið í skotárás í skola í Flórída í síðasta mánuði. Næstu helgi stendur til að halda kröfugöngur um öll Bandaríkin.

Uppfært 15:45


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×