Skoðun

Skyndilausnir.is

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Við Íslendingar elskum einfaldar og fljótlegar lausnir. Okkur er næstum því sama hvert vandamálið er. Ef ekki er til einföld og fljótleg lausn þá fyllumst við gjarnan leiða og áhugaleysi. Best er þegar við getum einfaldað málið niður í rifrildi um peninga. Hversu oft höfum við ekki heyrt að hinu og þessu megi bjarga ef við bara setjum meiri peninga í málið.

Umræðan um læsi grunnskólabarna er þessu marki brennd. Öðru hvoru koma í fjölmiðla íbyggnar persónur sem hafa einfalda lausn á lestrarvandamálinu. Það vantar bara peninga, einkum er nefnt að það vanti peninga í skólabókasöfn og síðan vantar peninga þannig að rithöfundarnir okkar skrifi fleiri bækur fyrir börn. Sjálfsagt er það rétt að sveitarfélögin mega setja meiri peninga í skólabókasöfn og það á að styðja við rithöfunda til að þeir skrifi fleiri og betri barnabækur. En því miður er þessi einfalda íslenska lausn ekki lausn á lestrarvanda íslenskra barna. Ástæðan er sú að lestrarvandinn er strákavandi.

Um þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla, en hlutfallið hjá stúlkunum er innan við 15%. Skýringin á vanda drengjanna er ekki peningaleysi skólabókasafna, nema við trúum því að sá vandi komi harðar niður á drengjum en stúlkum. Og varla hafa rithöfundarnir bara skrifað skemmtilegar bækur fyrir stelpur og skilið strákana eftir. Nei, vandinn er flóknari og lausnin því flóknari. Við skulum gæta okkar á einföldu peningalausnunum en muna að frumábyrgð á lestrarkunnáttu barna liggur hjá foreldrunum. Sú ábyrgðartilfinning er mikilvægt fyrsta skref í átt að bættu læsi drengja.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×