Íslenski boltinn

Fylkir vonast eftir Ólafi Inga eftir HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsmaðurinn Ólafur Ingi Skúlason gæti gengið til liðs við Fylki eftir Heimsmeistaramótið í Rússlandi. Þetta sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, í Akraborginni í dag.

Ólafur Ingi er á mála hjá tyrkneska liðinu Karabükspor, en þar hefur hann verið síðan 2016. Hann er uppalinn Fylkismaður og bindur Helgi vonir við að fá hann aftur í Árbæinn í sumar.

„Ásgeir Eyþórsson er að koma til baka til okkar í lok maí og við vonumst eftir að Ólafur Ingi Skúlason komi eftir HM,“ sagði Helgi í Akraborginni.

Hann sagði þó ekkert vera frágengið með Ólaf, það sé hins vegar staðfest að Ásgeir Eyþórsson komi aftur í Fylkisliðið í maí.

Verið er að vinna að lagningu gervigrass á heimavöll Fylkis í Árbænum, en sú vinna ætti að klárast í júní sagði Helgi. Fylkir þarf því að spila fyrstu heimaleiki sína í deildinni í Egilshöll. Fylkir hefur leik í Pepsi deild karla á útivelli, laugardaginn 28. apríl gegn Víkingi í Fossvoginum.

Spjall Hjartar Hjartarssonar við Helga í heild sinni má heyra í sjónvarpsglugganum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×