Innlent

Sagði afstöðu íslenskra yfirvalda til árásanna mjög misvísandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin er tekin rétt áður en fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst klukkan 20 í kvöld.
Myndin er tekin rétt áður en fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst klukkan 20 í kvöld. Vísir/Egill
Fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst í Alþingishúsinu um klukkan 20 í kvöld. Embættismenn frá ráðuneytinu auk nefndarmanna voru mættir þegar fréttamann Stöðvar 2 bar að garði en boðað var til fundarins vegna loftárása Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands í Sýrlandi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði fyrir fundinn á áttunda tímanum í kvöld að afstaða íslenskra yfirvalda til árásanna væri mjög misvísandi. Því væri brýnt að utanríkisráðherra geri betur grein fyrir afstöðu stjórnvalda í málinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kvaðst fyrir fundinn munu upplýsa nefndina eftir bestu getu. Þá sagði hann afstöðu Íslendinga í samræmi við nágrannalönd og þær þjóðir sem við berum okkur saman við.

Að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanns utanríkismálanefndar, er ráðgert að fundurinn standi yfir í um klukkustund.

Nokkurs misræmi þykir hafa gætt í viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við loftárásum vesturveldanna. Utanríkisráðherra sagði í gær skiljanlegt að ríkin þrjú hafi gripið til hernaðaraðgerða eftir efnavopaárásar sem Sýrlandsstjórn er sökuð um að hafa gert á bæinn Douma um síðustu helgi.

Nokkrir þingmenn hafa lýst efasemdum sínum um árásirnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í þættinum Sprengisandi í hádeginu að hún væri mótfallin árásunum. Loftárásir hefðu engan vanda leyst í Sýrlandi fram að þessu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×