Erlent

Íhuga að ákæra Spacey fyrir kynferðisbrot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kevin Spacey hefur átt í vök að verjast frá því í nóvember síðastliðnum.
Kevin Spacey hefur átt í vök að verjast frá því í nóvember síðastliðnum. Vísir/Getty

Saksóknarar í Los Angeles kanna nú hvort að tilefni sé til að ákæra leikarann Kevin Spacey fyrir kynferðisbrot, sem hann er sagður hafa framið á tíunda áratugnum.

Lítið hefur lekið í fjölmiðla um smáatriði málsins en á vef breska ríkissjónvarpsins kemur fram að um „atvik með karlmanni í vesturhluta Hollywood árið 1992,“ sé að ræða.

Lögreglan í Los Angeles hefur þó viljað staðfesta að hún hefur haft málið til rannsóknar frá því í desember. Það hafi svo ratað á borð saksóknara í upphafi þessa mánaðar. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort að hið meinta brot kunni að hafa fyrnst, sem alla jafna er raunin eftir 10 ár í kynferðisbrotamálum í Kaliforníu.

Rúmlega 30 karlmenn hafa stigið fram á síðustu mánuðum og ásakað Spacey um að hafa brotið á sér kynferðislega. Talsmaður leikarans hefur ekki viljað tjá sig um hina nýju ákæru en Spacey hefur neitað öllum ásökunum sem komið hafa fram á hendur honum.

Þær byrjuðu að hrannast upp eftir að leikarinn Anthony Rapp sagði í nóvember síðastliðnum að Spacey hafi brotið á sér árið 1985. Þá var Rapp 14 ára en Spacey 26 ára. Kevin Spacey sagðist þá ekki muna eftir málinu en að hann bæðist afsökunar, ef hann hafði raunverulega brotið af sér. Hann nýtti jafnframt tækifærið til að koma út úr skápnum - sem þótti mjög taktlaust á þeim tímapunkti.

Áskanirnar hafa orðið til þess að Spacey fær varla vinnu við leiklist lengur. Til að mynda þurftu handritshöfundar House of Cards að endurskrifa alla síðustu þáttaröðina eftir að Spacey var rekinn umsvifalaust.

Lögreglan í Lundúnum rannsakar að sama skapi þrjú mál sem tengjast meintum kynferðisbrotum leikarans í borginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×