Umfjöllun: Ísland - Færeyjar 5-0 | Fimm marka sigur Íslands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta sigraði það færeyska 0-5 í undankeppni HM 2019 í Færeyjum í dag.

Strax frá upphafi voru íslensku stelpurnar með mikla yfirburði og fór leikurinn fram alfarið á vallarhelmingi heimakvenna fyrsta korterið. Þó náði íslenska liðið ekki að koma boltanum í marknetið og færeyska liðið náði að vinna sig betur inn í leikinn.

Þegar fór að líða á fyrri hálfleik dofnaði nokkuð yfir leiknum og var fátt um fína tilburði. Harpa Þorsteinsdóttir kom boltanum í netið þegar rúmlega hálftími var liðinn af leiknum en var dæmd rangstæð. Stuttu seinna kom svo loks fyrsta markið þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Markmaður Færeyinga stökk út í boltann en náði honum ekki og Gunnhildur var á undan færeysku varnarmönnunum í boltann.

Eftir markið lifnaði aðeins yfir leiknum en fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik. Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og tvöfaldaði Rakel Hönnudóttir forystu Íslands strax á 47. mínútu. Ekki leið svo á löngu þar til Harpa Þorsteinsdóttir var búin að koma Íslandi í 3-0.

Í stað þess að gera út um leikinn með þriðja markinu þá komust Færeyingar betur inn í hann og áttu nokkur hættuleg færi að marki Íslands, en Sandra Sigurðardóttir var vel á verði. Íslenska liðið var þó með stjórn á leiknum og þrátt fyrir nokkur færi heimakvenna var sigur Íslands aldrei í hættu.

Agla María Albertsdóttir, sem átti mjög góða innkomu af bekknum, gerði svo út um leikinn undir lok venjulegs leiktíma með þrumuskoti áður en Fanndís Friðriksdóttir bætti síðasta markinu við í uppbótartíma.

Leikurinn sem var í heildina frekar daufur á að líta og má segja að íslenska liðið hafi oft á tíðum verið að spila undir pari. Færeyska liðið gerði þeim þó erfitt fyrir með því að spila þétta vörn, oft á tíðum voru allir leikmenn Færeyja fyrir aftan boltann. Íslensku stelpurnar fara þó heim með stigin þrjú sem mestu máli skiptir og eru enn taplausar í riðlinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira