Erlent

Assad-liðar ráðast gegn bandamönnum Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjaldgæft er að til bardaga komi á milli Assad-liða og SDF og hefur Efrat-fljótið myndað nokkurs konar landamæri á milli fylkinganna.
Sjaldgæft er að til bardaga komi á milli Assad-liða og SDF og hefur Efrat-fljótið myndað nokkurs konar landamæri á milli fylkinganna. Vísir/AFP
Harðir bardagar hafa átt sér stað á austurbakka Efrat-fljót í Sýrlandi í dag eftir að sveitir hliðhollar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, réðust á bandamenn Bandaríkjanna, SDF, sem að mestu samanstanda af sýrlenskum Kúrdum. Ríkissjónvarp Sýrlands, SANA, sagði Assad-liðana hafa náð tökum á nokkrum þorpum í Deir Ezzor en SDF og Bandaríkin segjast hafa rekið þá brott í gagnárás.

Syrian Observatory for Human Rights, sem rekur umfangsmikið net heimildarmanna í Sýrlandi, segir sex meðlimi SDF hafa fallið og 22 hafa særst. Ekki er vitað hve margir Assad-liðar féllu.

Sjaldgæft er að til bardaga komi á milli Assad-liða og SDF og hefur Efrat-fljótið myndað nokkurs konar landamæri á milli fylkinganna. Bandaríkin eru með fjölda hermanna í austurhluta Sýrlands þar sem þeir hafa aðstoðað SDF gegn Íslamska ríkinu.

Svæðið sem um ræðir er talið ríkt af olíu- og gaslindum.

Síðast kom til átaka á milli fylkinganna í febrúar þegar Assad-liðar gerðu árás á herstöð SDF á svæðinu. Þá voru bandarískir hermenn staddir í herstöðinni og gerðu Bandaríkin umfangsmiklar loftárásir á árásaraðilana. Minnst hundrað manns og allt að þrjú hundruð féllu í árásinni og þar á meðal voru rússneskir málaliðar.

Samkvæmt Reuters segja SDF að rússneskir málaliðar hafi aftur tekið þátt í árásunum gegn þeim. Þó er talið að málaliðar á vegum Íran og meðlimir Hezbollah hafi verið stærstu fylkingarnar í árásarliðinu. Þá segir heimildarmaður fréttaveitunnar að Bandaríkin hafi einnig aftur gert loftárásir til að stöðva árásirnar.

Hér að neðan má sjá umfjöllun MSNBC um árásina í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×