Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - FH 0-1 | Lennon tryggði FH sigur í Grindavík

Smári Jökull Jónsson á Grindavíkurvelli skrifar
Steven Lennon tryggði FH sigur í Grindavík.
Steven Lennon tryggði FH sigur í Grindavík. vísir/andri marinó
FH sótti þrjú stig til Grindavíkur þegar þeir unnu 1-0 sigur í 1.umferð Pepsi-deildar karla. Steven Lennon skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik og FH hefur Íslandsmótið því á sigri.

Það var mikil barátta í byrjun og ljóst að menn ætluðu að selja sig dýrt. FH var töluvert meira með boltann en það voru heimamenn sem fengu færin í upphafi. Fyrst skapaðist hætta eftir fyrirgjöf Gunnars Þorsteinssonar sem Gunnar Nielsen átti í vandræðum með og skömmu síðar fékk Will Daniels algjört dauðafæri sem hann misnotaði illa.

FH komst betur og betur í gang með sinn sóknarleik og á 34.mínútu kom eina mark leiksins. Steven Lennon fékk þá góða sendingu innfyrir vörn Grindavíkur og klárði snilldarlega utarlega í teignum, skotið í samskeytin fjær.

Í síðari hálfleik bökkuðu FH-ingar síðan aðeins og heimamönnum gekk bölvanlega að skapa sér hættuleg færi. Jóhann Helgi Hannesson byrjaði í framlínunni en fékk úr litlu að moða og var tekinn af velli eftir klukkutíma.

Rene Joensen var einna líflegastur sóknarlega hjá Grindvíkingum en það vantaði upp á gæðin á síðasta þriðjungi vallarins.

FH fékk einhver hálffæri og Steven Lennon átti tvö ágæt skot úr teignum sem bæði fóru framhjá.

Að lokum voru það FH-ingar sem fögnuðu sigri og geta verið ánægðir með það.

Af hverju vann FH?

Þeir eru með meiri gæði fram á við heldur en Grindavík og leikmaður eins og Steven Lennon er alltaf líklegur til að skora mark. Með Geoffrey Castillion með sér verða FH-ingar eitraðir fram á við.

Vörn FH hélt vel í dag þrátt fyrir að hafa gefið færi á sér í upphafi leiks. Skipulag Ólafs þjálfara virðist vera að komast inn í hausinn á mönnum og komist Fimleikafélagið á skrið munu þeir veita Valsmönnum harða keppni á toppnum.

Grindvíkingar skorti gæði á síðasta þriðjungi vallarins og margir munu eflaust tala um brotthvarf Andra Rúnars Bjarnasonar sem var allt í öllu í þeirra sóknarleik í fyrra.

Þessir stóðu upp úr:

Steven Lennon var skeinuhættur í sókn FH og fær nafnbótina maður leiksins. Hjörtur Logi Valgarðsson og Viðar Ari Jónsson ógna úr bakvarðarstöðunum og þó svo að Geoffrey Castillion hafi ekki sýnt nein rosaleg tilþrif í dag verður hann öflugur fyrir FH.

Hjá Grindavík var Rene Joensen öflugur og augljóst að Óli Stefán Flóventsson þjálfari treystir á að hann skapi hættu í sókn heimamanna. Gunnar Þorsteinsson byrjaði vinstra megin á miðjunni og átti ágætis fyrirgjafir og þá var Sam Hewson duglegur á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Grindavík fékk færi í upphafi en eftir að FH-ingar komu vörninni í gott lag var lítið að frétta. Sendingar gengu ekki nógu hratt á milli manna og þegar þeir áttu möguleika á að opna vörn FH voru þeir stundum of lengi að athafna sig. Það vantar Alexander Veigar Þórarinsson í lið heimamanna en hann verður mikilvægur hjá Grindavík í sumar.

Hvað gerist næst?

Næst eru bikarleikir á dagskrá og það verður Suðurnesjaslagur þegar Grindavík fer í Garðinn og mætir Víði. FH fer í Breiðholtið og mætir ÍR

FH tekur á móti Breiðablik í stórleik í 2.umferð Pepsi-deildarinnar. Ólafur Kristjánsson mætir þar sínum gömlu félögum en hann gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum árið 2010.

Grindavík heldur sig á Suðurnesjum og mætir Keflavík í Bítlabænum. Keflvíkingar náðu góðu jafntefli gegn Stjörnunni í gær og það verður gaman að fylgjast með þessum grannaslag.

Ólafur: Valsmenn munu fá harða keppni
Ólafur Kristjánsson er mættur heim í Hafnarfjörð.vísir
„Þrjú stig er það sem við komum hingað til að ná í og mér fannst liðið vinna virkilega vel til að ná því,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir sigur hjá Hafnfirðingum í Grindavík í 1.umferð Pepsi-deildarinnar.

„Í fyrri hálfleik var Grindavíkur liðið mjög þétt og við komumst ekki eins vel undir þá og við hefðum viljað. Lenny (Steven Lennon) skoraði frábært mark og við áttum möguleika rétt á undan þar sem vantaði millimetra uppá. Grindavík var meira á boltanum í seinni hálfleik en við áttum stóru tækifærin í þessum leik,“ bætti Ólafur við.

FH gekk illa í Lengjubikarnum en það hefur verið stígandi í leik liðsins undanfarið og leikur liðsins í dag var nokkuð góður.

„Síðustu leikir hafa verið fínir. Við höfum verið agaðir varnarlega, prýðilegir sóknarlega og skapað nokkuð af færum. Þetta er ágætis stígandi.“

Helgi Mikael Jónasson dómari gaf leikmönnum 8 gul spjöld í dag og var duglegur að refsa mönnum fyrir tuð.

„Mér fannst leikurinn alls ekki grófur. Oft þegar maður tapar og talar um dómgæslu hljómar maður eins og einhver vælukjói. En ég átti erfitt með að skilja línuna í dag, virkilega erfitt.“

Næst er bikarleikur hjá FH-ingum og svo leikur gegn Blikum sem Ólafur þjálfaði áður.

„Það er bikarleikur á þriðjudag og Blikaleikur í næstu umferð. Þetta er ákveðinn tröppugangur en við stefnum á sigur í hverjum leik. Nú er þessum lokið og hann lofar fínu. Við þurfum að halda áfram að hafa fyrir hlutunum,“ sagði Ólafur og bætti við að Valsmenn myndu fá harða keppni um titilinn en flestir búast við að Valsmenn verji Íslandsmeistaratitilinn.

„Þessi flestir eru nú oft í þinni stétt, kollegar þínir. Auðvitað höfum við þjálfarar og leikmenn í deildinni séð að Valsmenn eru með firnasterkt lið. Maður sér á byrjunninni á mótinu að það er ekkert gefið eftir. Það eru allir með autt blað, margir vilja minna mótið og þeir fá harða keppni.“

Óli Stefán: Fannst við leggja góða vinnu í þetta
Óli Stefán Flóventsson.Vísir/Andri Marínó
„Ég hef ákveðið að horfa á frammistöðuna í stað þess að velta mér of mikð upp úr úrslitunum. Mér fannst við leggja góða vinnu í þetta og við gáfum þeim leik. Hugsanlega hefði jafntefli verið sanngjarnt en í þeirri vinnu sem ég er í horfi ég frekar á frammistöðu en úrslit,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn FH.

Grindavík ógnaði lítið í síðari hálfleik en fékk tækifæri til að komast yfir áður en Steven Lennon kom FH yfir. Will Daniels fékk til dæmis dauðafæri eftir fínan undirbúning Rene Joensen.

„Við fengum tvö ákjósanlega færi snemma leiks og við verðum að nota þessa sénsa þegar við erum að byggja okkur upp. Úti á velli, staðan og þessi fasi fram að síðustu sendingu á þeirra vallarhelmingi var mjög gott. Við höfðum fína stjórn gegn frábæru FH-liði. Þeir bakka og keyra á okkur þegar við töpum boltanum en við sýndum aga og þolinmæði, við vorum að reyna að finna réttu möguleikana og það kemur.“

Jóhann Helgi Hannesson kom til Grindavíkur í vetur frá Þór Akureyri. Hann fékk gult spjald þar sem FH-ingar vildu fá rautt og var orðinn frekar tæpur á að fá annað gult spjald þegar Óli Stefán tók hann útaf. Var Óli smeykur við að missa hann útaf?

„Jóhann Helgi er að koma til baka eftir höfuðhögg og er búinn að vera frá. Klukkutími var fínt hjá honum í dag.“

Næst hjá Grindavík er leikur gegn Víði í bikarnum og svo halda þeir í Keflavík í Suðurnesjaslag í næstu umferð Pepsi-deildarinnar.

„Ég ætla að reyna að tengja frammistöðuna áfram í næstu leiki. Næst er leikur gegn Víði í bikarnum og við þurfum að ná okkur eftir þennan leik og halda áfram. Það er mikilvægt í því sem við erum að gera,“ sagði Óli Stefán að lokum.

Lennon: Þeir eru ekki eins skipulagðir og fólk heldur
Lennon skoraði sigurmarkið í dagvísir/stefán
„Þetta var gott skot. Ég held að Kiddi (Kristinn Steindórsson) hafi komið með sendinguna í gegn, þetta var heppnisstoðsending hjá honum. Ég hitti boltann vel, náði hreinni spyrnu og það var ljúft að sjá boltann svífa efst í fjærhornið,“ sagði Steven Lennon framherji FH um markið sem tryggði þeim sigur gegn Grindavík í dag.

„Að halda hreinu er mikilvægt hvað varðar sjálfstraustið fyrir vörnina og markmanninn. Við ætluðum bara að ná í þrjú stig og hvort sem við myndum vinna 1-0 eða 10-0 þá er mér sama svo lengi sem við vinnum,“ bætti Lennon við en hann var maður leiksins í dag.

„Fólk segir að þeir séu með hörkulið. Þeir eru ekki eins vel skipulagðir varnarlega og fólk heldur. Það er svæði í vörninni þeirra og á betri velli hefðum við skapað fleiri færi. Það þurfti gott mark í dag til að ná sigrinum.“

Ólafur Kristjánsson þjálfari sagði að það væru búið að vera stígandi í leik FH undanfarið og Lennon var ánægður með stöðuna á liðinu.

„Við erum að byggja ofan á leik liðsins í hverri viku og taka framförum. Þegar nýju leikmennirnir komast betur inn þá held ég að við verðum betri með hverjum leiknum,“ sagði Lennon að lokum.


Tengdar fréttir

Ólafur: Valsmenn fá harða keppni

„Þrjú stig er það sem við komum hingað til að ná í og mér fannst liðið vinna virkilega vel til að ná því,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir sigur hjá Hafnfirðingum í Grindavík í 1.umferð Pepsi-deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira