Íslenski boltinn

Víkingar finna markvörð tveimur dögum fyrir fyrsta leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aris á skutlunni.
Aris á skutlunni. mynd/helsingör
Pepsi-deildarlið Víkings er loks búið að finna sér nýjan aðalmarkvörð en liðið hefur fengið danska markvörðinn Aris Vaporakis að láni frá danska 1. deildar liðinu Helsingör.

Varporakis er 23 ára gamall og hefur verið varamarkvörður danska liðsins. Hann sér nú fram á að fá spiltíma og leiki í efstu deild undir belti.

„Ég fæ að spila hjá Víkingi og þar með tækifæri til að þroskast jafnt innan sem utan vallar. Það verður spennandi að reyna fyrir sér í öðru landi og í annarri menningu,“ segir Vaporakis við heimasíðu Helsingör.

Víkingar hafa leitað logandi ljósi að markverði undanfarnar vikur og hafa nokkrir runnið þeim úr greipum á síðustu stundu en þeir setja nú traust sitt þennan 23 ára gamla Dana.

Róbert Örn Óskarsson verður ekki með Víkingi í sumar en hjá félaginu er Senegalinn Morice sem hefur ekki enn fengið atvinnuleyfi.

Víkingur mætir Fylki í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar á laugardaginn á heimavelli og eru nú komnir með markvörð á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×