Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - Fjölnir 1-1 | Jafnt í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. vísir/eyþór
ÍBV og Fjölnir skildu jöfn, 1-1, í annari umferð Pepsi-deildar karla en leikið var í athyglisverðu veðri í Vestmannaeyjum í dag.

Hávaðarok var í Vestmannaeyjum þegar leikur ÍBV og Fjölnis fór af stað. Eyjamenn hófu leikinn af krafti og gerðu vel í að halda boltanum niðri á móti vindi.

Þeir sköpuðu sér nokkur álitleg marktækifæri en inn vildi boltinn ekki. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður tóku Fjölnismenn við sér og fóru að sækja meira með vindinn í bakið.

Fjölnismenn voru nálægt því að komast yfir undir lok hálfleiksins eftir hornspyrnu frá Birni Snæ Ingasyni sem ÍBV áttu í erfiðleikum með að hreinsa frá marki. Báðum liðum mistókst að skora þrátt fyrir ágætis tækifæri og gengu liðin markalaus til búningsherbergja þegar flautað var til hálfleiks.

 

Heimamenn stjórnuðu ferðinni í síðari hálfleik en þó án þess að skapa sér opin tækifæri og reyndu lítið á Þórð Ingason í marki Fjölnis.

Það dró til tíðinda þegar um stundarfjórðungur lifði leiks þegar Fjölnismenn komu boltanum út á vinstri kant þar sem Guðmundur Karl Guðmundsson tók við boltanum og sendi þessa líka frábæru sendingu inn fyrir á Valmir Berisha, sem var að byrja sinn fyrsta leik í Pepsi deildinni, og þakkaði hann kærlega fyrir með því að koma boltanum í markið framhjá Derby.

Þetta átti sér stað einungis mínútu eftir að Gunnar Heiðar Þorvaldsson hafði komið sér í úrvalsfæri eftir að hafa sent varnarmenn Fjölnis út í búð en Þórður í markinu sá við honum.

Eyjamenn héldu áfram að sækja en lítið gekk. Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, gerði síðan sína síðustu breytingu þegar hann tók fyrirliðann Sindra Snæ Magnússon af velli og hleyptu Ágústi Leó Björnssyni inn í leikinn.

Ágúst hafði varla snert boltann áður en hann jafnaði leikinn fyrir heimamenn. Kaj Leó í Bartalsstovu fékk þá boltann úti á hægri kanti og sendi fyrir mitt á milli varnar og markmanns þar sem Ágúst Leó kom á ferðinni og setti boltann í netið. Staðan orðin 1-1 og lítið eftir.

Bæði lið reyndu eins og þau gátu að glefsa í stigin þrjú en svo fór að leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

 

Kristján: Var lélegur í seinasta leik

„Við áttum að vinna þennan leik," sagði Kristján Guðmundsson að leik loknum. „Mér fannst við stjórna honum allan tímann og fáum hálffæri og færi og hrikalegt að við gerum þessi mistök sem verða til þess að við fáum á okkur mark en við áttum að vinna þennan leik."

„Við gerum einhver mistök þarna á miðjunni og við erum framarlega með vindinn í bakið að sækja þannig að það er alltaf hætta á þessu en á móti kemur er að við erum fljótir að koma til baka og strákarnir sýndu allavega smá karakter í að jafna leikinn. Nú erum við bara komnir inn í mótið og það er gott."

Shahab Tabar Zahedi byrjaði leikinn á bekknum. Spurður út í það sagði Kristján:

„Hann var bara lélegur í seinasta leik og ekki búinn að geta neitt á æfingum í vikunni svo við ákváðum bara að skipta og leyfa Guy (Kassa Guy Mickael Gnabouyou) að byrja og sjá hvað hann myndi gera."

 

 Ólafur Páll: Stig töpuð

„Stig töpuð," sagði Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, spurður hvort hann væri ánægður með jafnteflið.

„,Þeir voru töluvert sterkari aðilinn fyrstu 20-30 mínúturnar. Settu okkur undir pressu en við tókum yfir leikinn síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik og allan seinni hálfleik á móti vindinum.”

„Það hentaði okkur betur að spila á móti vindinum enda skoruðum við flott mark þar."

„Þeir voru nú ekkert að sækja neitt svakalega í seinni hálfleiknum en þegar það er svona vindur þá er erfitt að verjast og þetta var kannski smá einbeitingarleysi þegar markið kemur en það er svo erfitt að reikna út vindinn hérna að það er lítið við þessu að gera í raun og veru," sagði Ólafur að lokum.

 

Gunnar Heiðar: Þegar þeir fá smá hríð á sig átti að stoppa leikinn

„Ég er ánægður með að vera kominn með punkt á blað en ekki ánægður með að hafa ekki unnið þennan leik," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, framherji ÍBV.

„Mér fannst við eiga það skilið. Allt annað að sjá okkur í dag miðað við Breiðabliks leikinn og það jákvæða í dag er það að ég held að allir í ÍBV séu svekktir og það er mjög gott finnst mér. Þá vitum við það að við viljum meira og ætlum okkur meira."

Dómari leiksins stöðvaði leikinn í haglélshríð í síðari hálfleik. Gunnar og félagar voru ekki sáttir við það en af hverju?

„Það var alveg stór skrýtið mál. Við fengum 10 mínútna haglél á okkur og við héldum bara áfram. Það kom ekkert til umræðu að stoppa leikinn og fara að hvíla sig eitthvað en svo þegar þeir fá smá hríð á sig, þá átti bara að stoppa og ég veit ekki hvað og hvað.”

„Þetta er náttúrulega vitleysa. Það á bara að ganga á bæði lið eða ekki. Íslenskt sumar, maður. Já, takk," sagði Gunnar glottandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira