Vísar Ásta til þess þegar formaðurinn Ragnar Þór Ingólfsson gaf lítið fyrir tölur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) í umræðuþætti á Hringbraut á dögunum.

Tölurnar „meingallaðar“
Í þættinum voru laun á Íslandi til umræðu. Benti Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, á að í samanburði við Norðurlöndin væri jöfnuður meiri. Lægsta tekjufimmundin hefði hlutfallslega hærri ráðstöfunartekjur hér á landi en annars staðar. Ragnar Þór gaf lítið fyrir þessar upplýsingar Konráðs og sagði það margsinnis hafa sýnt sig að tölur frá OECD og Eurostat gætu verið meingallaðar.Þær lýsi ekki raunveruleikanum og önnur leið til að komast að hinu rétta sé að bera saman stöðu fólks í sambærilegum stöðum á Norðurlöndunum. Konráð blöskraði að formaður VR vildi horfa framhjá tölum OECD og Eurostat en byggja á eigin samanburði VR. Undir þetta tekur Ásta Sigríður í pistli sínum á heimasíðu Viðskiptaráðs. Nefnir hún Donald Trump til samanburðar.
Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.
„Það kemur því á óvart að ekki glennist augu fleiri af undrun þegar forystumaður í verkalýðshreyfingu landsins staðfestir í sjónvarpsútsendingu að hann hafni tölfræði og staðreyndum sem koma frá alþjóðlegum stofnunum á borð við OECD (Efnahags- og framfarastofnuninni) og Eurostat (Hagstofu ESB). Hann telur réttmætara að horfa til „raunverulegra dæma“ líkt og hagdeild VR hefur tekið saman og vitnar í rannsókn á vegum hagdeildar VR þar sem strætóbílstjórar í Svíþjóð og á Íslandi eru bornir saman. Staðan er víst „svört og hvít“ – slíkur er kjaramunur þessara einstaklinga.“
Opinberar hagtölur, þar með talið meðaltöl og dreifing tekna, séu skástu heildrænu samanburðarmælikvarðarnir á skiptingu gæða sem í boði séu. Þær sýni að sjálfsögðu ekki þau einstöku dæmi sem falli undir útreikninginn og ekki alla söguna ein og sér.

Kjör íslenskra forstjóra lægri en þeirra sænsku
„Því var ekki úr vegi að kanna hvort þessi nýja staðreyndarnálgun myndi varpa nýju ljósi á aðra sambærilega hópa milli landa. Forstjórar hafa verið í kastljósinu að undanförnu vegna gífurlegra launahækkana. Því mætti kanna hvernig samanburður á launakjörum þeirra og forstjóra í Svíþjóð kæmi út. Til að tryggja nógu sterkt raundæmi voru forstjórar í kauphöllum landanna teknir fyrir. Þeir íslensku eru með um 4,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði í heildarlaun á meðan miðgildi grunnlauna kauphallarforstjóra í Svíþjóð var um 7 milljónir íslenskra króna á mánuði. Við það bætast kaupaukagreiðslur Svíanna og annað sem getur auðveldlega tvöfaldað grunnlaunin og gefið þeim heildarlaun upp á rúmlega 14 milljónir króna á mánuði. Íslenskir kauphallarforstjórar eru því með töluvert lægri laun en þeir sænsku. Hér er staðan kannski ekki „svört og hvít“ – en klárlega aftur Svíum í hag.“Ásta segir ofangreint mögulega óheppilegt dæmi þar sem kjör íslenskra forstjóra komi illa út í þessum samanburði milli landa.
„Færu forstjórar landsins að taka upp aðferðafræði að þessari fyrirmynd í sínum samningaviðræðum er hætt við að mörgum þætti nóg um.“