Hamas og Islamic Jihad hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum. Þeir segja þær vera viðbrögð við árásum Ísraelsmanna síðustu daga. Um er að ræða einhver umfangsmestu átök fylkinganna frá því í stríðinu á Gaza árið 2014.
Bandaríkin hafa boðað til fundar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á morgun vegna málsins. Sendiherra Ísrael hjá Sameinuðu þjóðunum kallaði eftir því í kvöld að Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu árásirnar.
Engar upplýsingar liggja fyrir um mannfall í Ísrael eða á Gaza-ströndinni en ótilgreindur fjöldi er sagður hafa særst í Ísrael, samkvæmt Times of Israel.
Talsmaður herafla Ísrael sagði í dag að herinn myndi gera fleiri loftárásir á Gaza ef árásunum yrði ekki hætt og gaf hann í skyn að herinn gæti reynt að ráðast á leiðtoga Hamas. Í dag hefur herinn gert árásir á minnst 35 skotmörk á Gaza sem þeir segja að hafa verið í umsjón leiðtoga Hamas og Islamic Jihad.
Yisrael Katz, ráðherra njósnamála í Ísrael, sagði í útvarpsviðtali í dag að ekki hefðu verið jafn miklar líkur á stríði síðan árið 2014. Ljóst væri að enginn vildi stríð en Ísraelsmenn hefðu sínar „rauðu línur“ sem þeir myndu ekki sætta sig við að Palestínumenn myndu stíga yfir.