Íslenski boltinn

Ólafur Ingi kominn heim í Fylki: Veiddi lax með berum höndum og færði þjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason. Fésbókarsíða Fylkis
Landsliðsmaðurinn Ólafur Ingi Skúlason er kominn í Fylkisbúinginn á nýjan leik. Fylkismenn tilkynntu í dag að Ólafur ætli að klára tímabilið með Árbæjarliðinu þegar hann kemur heim af HM.

Ólafur Ingi er núna á fullu í undirbúningi með íslenska karlalandsliðinu fyrir HM í Rússlandi sem hefst eftir rúmar tvær vikur. Samingur Ólafs Inga og Fylkis er út tímabilið 2019 en hann er 35 ára gamall síðan í apríl.

Ólafur Ingi er uppalinn í Fylki en spilaði síðast með félaginu sumarið 2003. Síðan þá hefur hann spilað sem atvinnumaður í Englandi, í Svíþjóð, í Danmörku, í Belgíu og svo síðustu árin í Tyrklandi.

Fylkismenn tilkynntu um samninginn við Ólaf Inga með því að setja saman skemmtilegt myndband af endurkomu hans í Árbæinn og þar má meðal annars sjá hann klæðast Fylkistreyjunni á ný.

Mynbandið er á léttu nótunum og þar má meðal annars sjá Ólafur Inga veiða lax í Elliðaárdalnum með berum höndum og færa hann svo Helga Sigurðssyni þjálfara.

Myndbandið er hér fyrir neðan en grínistinn Björn Bragi Arnarson tók á móti kappanum. Myndbandið byrjar með orðunum: „Það er sérstök tilfinning að vera búin að sigra heiminn og koma aftur heim“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×