Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Fylkir 1-1 | Nýliðarnir tóku stig í Kaplakrika

Stefán Árni Pálsson á Kaplakrikavelli skrifar
vísir/bára
FH er jafnt Blikum og Grindavík að stigum á toppi Pepsi deildar karla eftir að hafa gert jafntefli við Fylki á heimavelli í kvöld. Nýliðarnir úr Árbænum eru með átta stig í sjöunda sæti.

Orri Sveinn Stefánsson kom Fylkismönnum yfir á 24. mínútu leiksins en það var Brandur Olsen sem jafnaði metin fyrir FH í upphafi síðari hálfleiksins með fínu skoti.

Bæði lið fengu færi til að klára dæmið en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan 1-1 jafntefli.

Af hverju fór leikurinn jafntefli? Hvorugt liðið ætlaði sér að tapa hér í kvöld og það sást vel. Bæði lið voru nokkuð ákveðin og sóttu til sigurs en menn voru ekki að nýta sín færi nægilega vel. Það var kannski ástæðan fyrir því að aðeins komu tvö mörk í þessum leik, menn nýttu ekki sín tækifæri.

Hverjir stóðu upp úr? Það er erfitt að taka einhverja leikmenn sérstaklega út úr eftir leikinn í kvöld en Brandur Olsen átti sína spretti fyrir FH. Hann skoraði eitt mark og var að skapandi. Hákon Ingi Jónsson var duglegur frammi hjá Fylkismönnum og lét til sín taka. Það sama má segja um Albert Brynjar Ingason.

Hvað gekk illa? Skotnýting leikmanna hjá báðum liðum var ekki góð og menn verða einfaldlega að gera betur þegar þeir fá færi, því sum færin voru mjög góð. Bæði lið þurfa jafnvel að sýna aðeins meiri ró á boltann og taka betri ákvarðanir.

Hvað er framundan? FH-ingar eiga bikarleik framundan við KA á fimmtudaginn en þá hvíla Fylkismenn.

Ólafur: Sápa á hönskunum hjá Gunnari„Þetta var kaflaskiptur leikur. Við byrjuðum illa og vorum slakir. Við gáfum opnanir og þeir hefðu getað skorað áður en þeir komumst yfir,“ segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir leikinn.

„Við gefum þeim svo mark og þar hefur verið einhver sápa á hönskunum hjá Gunnari í markinu. Í seinni hálfleik spiluðum við af þeirri ákefð sem ég vill sjá liðið spila.“

Ólafur segir að liðið hafi skapað sér nægilega góð færi í leiknum til að skora fleiri.

„Við þurfum bara að gera meira til að vinna fótboltaleik. Fylkismenn komu okkur ekkert á óvart í kvöld. Þeir voru lélegir á móti Stjörnunni og við vissum að við myndum fá þá dýrvitlausa hingað. Það hefði verið gaman að vera einn á toppnum en við verðum þá bara að vinna leikina.“

Helgi: Getum unnið þá bestu, en það er stutt í drulluna„Ég er nokkuð sáttur með þessi úrslit en þessi leikur bauð upp á mörg færi á báða bóga,“ segir Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, eftir leikinn.

„Miðað við þau færi sem við fengum í þessum leik þá hefði ég viljað taka þrjú stig. Við virðum þetta eina stig og þetta er mjög erfiður útivöllur.“

Helgi segir að kannski heilt yfir hafi þessi úrslit verið sanngjörn.

„Við verðum að klára færin okkar betur. Við lögðum samt sem áður alveg gríðarlega mikla vinnu í þennan leik. Við höfum verið að spila á gervigrasi allt mótið og það er erfitt að koma á þennan völl, sem var mjög þungur.“

Fylkismenn eru með átta stig í deildinni og fara nokkuð vel af stað.

„Við getum unnið þá bestu. Við erum meðvitaðir um það en ef við erum ekki með á nótunum, þá er stutt í drulluna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira