Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - ÍBV 1-3 | Fyrsti sigur Eyjamanna

Þór Símon Hafþórsson á Nettó-vellinum í Keflavík skrifar
Sindri Snær skoraði tvö í dag.
Sindri Snær skoraði tvö í dag. vísir/ernir
Keflavík fékk Eyjamenn í heimsókn í dag í bullandi rigningu í Pepsi deild karla í fótbolta. Leikurinn var á milli tveggja neðstu liða deildarinnar og því ljóst að um sannkallaðan sex stiga fallslag var að ræða.

Það var því allt undir í dag en Keflavík byrjaði leikinn eilítið betur en misstu svo tökin á honum er aukaspyrna Jonathan Franks lak í gegnum vörn Keflvíkinga og á kollinn á Sindra sem stangaði boltann inn af stuttu færi.


Keflvíkingar reyndu að svara fyrir sig en flest af þeim svörum virtust fara í stöng og út. McAusland átti skalla í stöngina. Lengra komst Keflavík ekki í fyrri hálfleik og staðan 1-0 þegar flautað var til hlés.


Keflavík kom sterkt inn í seinni hálfleikinn og reyndi hvað það gat að jafna metin. Liðið virtist vera að færast nær og nær markmiði sínu þegar upp úr þurru Sindri, markmaður liðsins, mistókst hrappalega að hreinsa boltann frá marki en þess í stað fór boltinn í Sigurð Grétar sem slapp þá í gegn einn gegn marki og þakkaði pent fyrir sig með að setja boltann í netið.


Keflavík náði að minnka muninn strax í kjölfarið er Lasse Rise prjónaði sgi inn í teiginn og skaut fastan bolta sem Halldór Páll í markinu réð ekki við. Rétt á undan hafði Lasse Rise átt gullfallegt skot utan teigs sem small í stönginni.

Keflavík gerði hvað það gat til að jafna en á 88. mínútu komst Sindri Snær í gegn eftir fallega sendingu frá Kaj Leo og kláraði leikinn fyrir Eyjamenn sem nældu sér í dýrmæt þrjú stig.

Afhverju vann ÍBV?

Heilt yfir spilaði liðið betur og stýrði leiknum. Það var meiri fótbolti í liði ÍBV ef maður ætlar að leita í klisjubókina. Það og heppni en það verður að teljast einstaklega heppilegt þegar andstæðingur þinn á þrjú skot í stöngina og út.

Hverjir stóðu upp úr?

Sindri Snær var frábær á miðjunni og kórónaði leikinn með tveimur mörkum. Lasse Rise kom líka skemmtilega á óvart í seinni en eftir einstaklega dapran fyrri hálfleik vaknaði hann til lífsins svo um munaði. Á öðrum degi hefði hann kannski getað skilað inn stigum fyrir Keflavík en í dag var ekki sá dagur.


Hvað gekk illa?

Keflvíkingum gekk erfiðlega að skora þrátt fyrir að fá færin. 3 skot í stöngina er auðvitað að mörgu leyti bara óheppni en lið eins og Keflavík hefur ekki efni á að tapa svona stigum á heimavelli.


Hvað gerist næst?

Keflavík mætir FH en ÍBV á erfiðan bikarleik fyrir höndunum er bikarmeistararnir mæta Íslandsmeisturunum í Val.


Hólmar Örn: Gefum þeim algjör drullumörk

„Spiluðum ágætis leik og vorum að fá færi í dag sem okkur hefur vantað upp á síðkastið en við gefum þeim algjör drullu mörk,“ sagði Hólmar Örn, leikmaður Keflavíkur eftir tap hans manna gegn ÍBV í dag.

Í stöðunni 1-0 var Keflavík byrjað sækja í sig veðrið í leit af jöfnunarmarki en fékk þá á sig algjört klaufamark er Sindri, markvörður liðsins, þrumaði boltanum í Sigurð Grétar sem slapp þá í gegn og skoraði í autt markið.

„Mörk breyta leikjum og það var erfitt að fá þetta í andlitið,“ sagði Hólmar en Keflvíkingar urðu einnig fyrir áfalli þegar Sigurbergur, nýkominn úr erfiðum hnémeiðslum, virtist meiðast illa á hné.

„Það er vont að missa góða leikmenn útaf en það kemur maður í mans stað svo áfram gakk.“

Kristján: Þurfum að sjá hverjir geta staðið í rútunni

„Mikil gleði. Mjög gott. Margt af því sem við settum upp gekk vel. Strákarnir voru að taka skrefið frá FH leiknum um daginn og inn í þennan leik og betrumbæta okkar leik,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir sigurinn í dag á Keflavík.

Keflvíkingar geta verið ósáttir með að fá ekkert fyrir sinn snúð en liðið átti þrjú skot í stöngina en Eyjamenn nýttu færin sín vel.

„Þeir eiga nokkur skot í tréverkið en það sem skiptir máli er að við kláruðum færin okkar mjög vel.“

Fyrirliði liðsins, Sindri Snær Magnússon, átti frábæran leik og skoraði tvö mörk. Kristján var auðvitað sáttur með sinn mann.


„Hann tekur stundum út markaskóna í nokkrum leikjum á sumri. Vonandi heldur hann áfram á þessum nótum. Þetta voru flott hlaup sem hann tók inn í teiginn,“ sagði Kristján sem þarf núna að undirbúa sitt lið fyrir erfitt verkefni í bikarnum er ríkjandi bikarmeistarar í ÍBV mæta Íslandsmeisturum Vals.


„Nú þurfum við að telja hverjir geta staðið í rútunni á leiðinni heim á eftir til að sjá hvaða leikmenn geta spilað. Þetta er spennandi. Við ætlum að gera allt til að slá Íslandsmeistaranna úr bikarkeppninni.“

Guðlaugur um meiðsli Sigurbergs: Þetta lítur ekki vel út

„Það virðist vera hnéð. Við erum ekki búnir að fá greiningu strax en þetta lítur ekki vel út,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavík, um alvarleg meiðsli Sigurbergs sem var borinn af velli í upphafi seinni hálfleiks. 


Einstaklega mikið áfall þar sem Sigurbergur er bara nýlega búinn að ná sér á erfiðum hnémeiðslum en nú virðist baráttan vera að hefjast að nýju.

Keflavík átti fjöldan allan af færum en náði ekki að setja boltan í netið en ÍBV sigraði 3-1 að lokum.


„Við vorum með yfirhöndina í leiknum og sköpuðum ógrynni af færum. En við erum að gefa mörk og það er ljóst að ef við ætlum að sækja stíft þá getum við ekki verið að gefa mörk,“ sagði Guðlaugur en ÍBV skoraði eitt af þremur mörkum sínum eftir skelfileg mistök Sindra, markmanns Keflavíkur.


Ekki nóg með það heldur átti Keflavík þrjú skot í stöngina.

„Þetta féll engan veginn með okkur í dag en þetta féll svo sannarlega fyrir þeim,“ sagði Guðlaugur sem segir margt jákvætt sé hægt að taka úr leiknum en Keflavík bíður erfið fallbarátta í sumar.


„Við getum tekið fullt af jákvæðum hlutum úr þessum leik. Sköpum fleiri færi en við höfum verið að gera. En þessar gjafir sem við færum þeim í dag eru slæmar og við þurfum að lagfæra þær,“ sagði Guðlaugur en Keflavík er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig, þremur stigum á eftir ÍBV sem er í 11. sæti.


Sindri Snær: Ég elska að spila fótbolta

„Við komum hingað til að taka þrjú stig og gerðum það þannig við förum glaðir heim í bátinn í kvöld,“ sagði hetja Eyjamanna, Sindri Snær sem skoraði tvö mörk í dag.


„Þetta var mjög jafn leikur. Það sem gaf okkur sigurinn var færnaýtingin. Þeir áttu nokkur skot í tréverkið. En við fengum líka okkar færi og nýttum þau og það skilaði okkur þremur stigum í dag,“ sagði Sindri.

Hann kveðst vera spenntur fyrir næsta leik liðsins er ÍBV mætir ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í Mjólkurbikarnum en ÍBV eru einmitt ríkjandi bikarmeistarar.


„Ég elska að spila fótbolta. Það er bara gaman að það sé stutt í næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira