KA og Keflavík hafa ekki mæst í efstu deild í fjórtán ár eða síðan 2004. Það ár féll KA úr efstu deild en Keflavík var nýliði.
Norðanmenn komu ekki aftur upp fyrr en tólf árum síðar en Keflavík átti eftir að upplifa mikla velgengni með tveimur bikarmeistaratitlum og silfri í efstu deild árið 2008.
Hreinn Hringsson kom KA yfir, 1-0, í leik liðanna á Akureyrarvelli í maí 2004 en Jónas Guðni Sævarsson jafnaði metin á 57. mínútu með fínu marki eftir góðan sprett.
Það var svo Hólmar Örn Rúnarsson sem skoraði sigurmarkið á 72. mínútu með frábæru utanfótarskoti, óverjandi fyrir Sandor Matus í marki KA-manna.
Liðin mættust einnig í úrslitaleik bikarsins sama tímabil þegar að KA var fallið og þá vann Keflavík, 3-0.
Mörkin úr leiknum frá því 2004 í fyrstu umferð má sjá hér að neðan.