„Ég held að ég sé mjög vel undirbúinn en ég held að ég þurfi ekki mikinn undirbúning,“ sagði Trump á blaðamannafundi með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, í dag. „Þetta snýst um viðhorf. Að maður sé tilbúinn til þess að láta hluti gerast.“
Nú styttist óðum í fund leiðtoganna tveggja en fundurinn verður haldinn 12. júní næstkomandi. Hafa ráðgjafar Trump reynt að undirbúa hann vel fyrir fundinn.
Í frétt CNN segir að þeir hafi útbúið kynningarefni fyrir hann svo hann geti kynnt sér kjarnorkuáætlanir Norður-Kóreu og mat njósnastofnanna Bandaríkjanna á Kim Jong-un. Allt svo að Trump verði sem best undirbúinn fyrir fundinn.
Sagður telja sig þekkja Norður-Kóreu vegna fyrri viðskipta í Asíu
Segir einnig í frétt CNN að ráðgjafar hans hafi hins vegar áhyggjur af því að Trump sé ekki að meðtaka kynningarefnið og ætli sér að mæta á fundinn án þess að vera nógu vel undirbúinn, að þeirra matiTrump bætti þó við á blaðamannafundinum að hann hafi verið að undirbúa sig undir fundinn í lengri tíma, án þess þó að tiltaka í hverju sá undirbúningur hafi falist.
Í frétt CNN er Trump sagður hafa hreykt sér af því við nána samstarfsmenn sína að hann búi yfir miklum skilning á Norður-Kóreu vegna fyrri viðskipta hans í Asíu. Þá hefur Trump lengi haldið því fram að hann sé einstakur samningamaður.
Hvort það skilar sér í góðum samningi fyrir Bandaríkin, Norður-Kóreu eða heimsbyggðina verður að koma í ljós en ljóst er að fundurinn verður sögulegur, hvernig sem fer, eftir áratuga löng stirð samskipti milli ríkjanna tveggja.