Nýjung verður á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í ár sem fer fram 21. til 24. júní. Armbönd sem gestirnir fá innihalda örgjörva og verða tengd við bankareikning armbandshafa og þannig geta þeir borgað fyrir veitingar og annað á hátíðinni.
„Fólk fær armband þegar það kaupir miða á hátíðina sem verður tengt við bankareikning viðkomandi. Þetta virkar eins og snertilaus debetkort. Gestir nota svo Solstice-appið til að fylla á armbandið. Einnig verða básar á svæðinu og þangað getur fólk leitað með pening eða greiðslukort þar sem starfsfólk hjálpar gestum að fylla á armböndin,“ segir Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar. „Við höfum verið að leita leiða til að koma í veg fyrir að fólk undir aldri geti keypt áfengi á hátíðinni og svona getum við tryggt það.
Við erum ekki í neinni tilraunastarfsemi. Fyrirtækið sem við kaupum þjónustuna hjá er erlent og framarlega á sínu sviði. Þetta hefur reynst vel á öðrum hátíðum.“
Miklir peningar eru í umferð yfir hátíðina og getur verið mikið umstang í kringum það að ferja peninga á milli svæða. Armbandið mun því létta mikið undir. „Þetta eykur öryggi starfsmanna og einfaldar bókhald,“ segir Jón Bjarni.
„Við getum ekki fylgst með því hvað hver og einn er að kaupa, þetta er ekki persónugreinanlegt.“
