Íslenski boltinn

Gaf besta vininum sínum rautt spjald og bauð honum síðan í afmælið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson var heiðusrsgestur í Pepsi-mörkunum í gær þegar Hörður Magnússon og félagar gerðu upp sjöundu umferð Pepsi deildar karla.

Hörður byrjaði á því að sýna myndband frá því þegar Hannes fékk dæmda á sig vítaspyrnu og að auki rautt spjald í leik með KR í ágúst sumarið 2003.

Dómarinn sem rak hann þarna útaf stóð einmitt hjá honum í settinu því Gunnar Jarl Jónsson er einn af sérfræðingum Pepsi-markanna í sumar.

„Hér er Gunnar Jarl Jónsson að dæma og hann rekur einn besta vininn sinn útaf. Hvernig gastu gert honum þetta Gunnar,“ spurði Hörður þegar hann kynnti inn myndbrotið.

„Við áttum gott spjall um þetta á bílastæðinu út í KR, ég, Hannes og Gummi Hreiðars. Hann var rosalega illur og var ótrúlega ósáttur. Hann gat ekki verið verri en það að hann var svona mjög sáttur eiginlega í lokin,“ sagði Gunnar Jarl.

„Bauðstu mér ekki í afmælið þitt í kjölfarið,“ skaut Hannes inn í.

„Ég bauð honum í kjölfarið í þrítugsafmælið mitt sem var þarna tveimur vikum seinna,“ sagði Gunnar Jarl.

„Þetta var óþarfi hjá þér, þú gast alveg sleppt þessu,“ sagði Hannes ekki alveg búinn að sætta sig við þetta rauða spjald.

„Reglan í dag er þannig að þetta væri ekki rautt spjald,“ sagði Gunnar.  

„Fáránleg regla líka,“ svaraði Hannes.

Það má sjá þetta myndbrot og viðbrögð strákanna í settinum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×