Upp hefur komist um svindl á Íslandsbankamótaröðinni í golfi á fyrsta móti ársins sem fram fór á Strandarvelli á Hellu. Vefsíðan Kylfingur.is greindi frá þessu í dag.
Krefjandi aðstæður voru á Hellu um síðustu helgi þegar 129 kylfingar tóku þátt í fyrsta móti ársins á Íslandsbankamótaröðinni.
Einn keppandi mótsins á að hafa viljandi lagt niður nýjan bolta í þungum karga utan brautar þegar hann fann ekki boltann sinn. Atvikið átti sér stað við fyrstu holu á Strandarvelli.
Samkvæmt frétt Kylfings voru það leikmenn í öðrum ráshóp sem sáu atvikið og tilkynntu til dómara mótsins. Kylfingurinn viðurkenndi brotið fyrir dómaranum daginn eftir.
Ekki hefur enn verið úrskurðað hvort keppandinn verði dæmdur í bann vegna málsins.
