Leikstjórinn Brian De Palma, sem er einna þekktastur fyrir gerð myndanna Carrie og Scarface á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, er nú að skrifa handrit að hryllingsmynd sem byggir á kynferðisbrotum Hollywoodmógúlsins Harvey Weinstein.
Á níunda tug kvenna hafa sakað Weinstein um áreitni, nauðganir og önnur kynferðisbrot á áratugalöngum ferli hans sem einn valdamesti maður skemmtanaiðnaðarins Vestanhafs. Hann á yfir höfði sér allt að aldarfjórðung í fangelsi ef hann verður sakfelldur fyrir þau brot sem búið er að birta ákæru fyrir. Fleiri ákærur gætu bæst við.
De Palma segir mál Weinsteins tilvalinn efnivið í hryllingssögu af fullkomnum trúnaðarbresti, grófri misnotkun og valdbeitingu gegn hinum valdaminni á stórum skala. Segist hann fylgjast grannt með þróun málsins, auk þess sem hann þekki marga þeirra sem komi við sögu í því. Þá viðurkennir De Palma að hafa heyrt sögur af framferði Weinsteins í Hollywood í mörg ár áður en þær urðu opinberar.
Leikstjórinn segir að aðalpersóna myndarinnar muni ekki heita Harvey Weinstein þó að líkindin séu vísvitandi augljós.