Poulsen breyttist úr skúrk í hetju í sigri Dana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Poulsen bætti fyrir vítadóminn með marki
Poulsen bætti fyrir vítadóminn með marki Vísir/getty
Danir náðu í mikilvæg þrjú stig gegn Perú í dag í leik þar sem myndbandsdómgæsla var aftur áberandi.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks var Perú dæmd vítaspyrna eftir athugun myndbandsdómara. Bakary Gassama, dómari leiksins, hafði látið leikinn halda áfram en fékk síðan boð í eyra frá mönnunum sem sitja í gámi einhvers staðar í Rússlandi og horfa á sjónvarpsskjái að skoða þyrfti þetta betur.

Gassama fór að skjánum og skoðaði málin, ákvað svo að dæma vítaspyrnu fyrir brot Yussuf Poulsen á Christian Cueva. Endursýningar sýndu að Poulsen fór klárlega í fótinn á Cueva, klár vítaspyrna.

Cueva fór sjálfur á punktinn en hann þrumaði boltanum yfir markið. Gassama flautaði til hálfleiks og Cueva átti erfitt með að halda aftur af tárunum.

Cueva þrumar boltanum yfir markið úr vítaspyrnunnivísir/getty
Eftir að hafa sloppið með skrekkinn í fyrri hálfleik voru það Danir sem komust yfir. Skúrkurinn Poulsen sem gaf vítaspyrnuna varð að hetju. Hann fær frábæra sendingu frá Christian Eriksen í hlaupaleiðina sína. Fyrsta snertingin var ekki alveg nógu góð en hann náði að bjarga sér og koma boltanum í netið.

Það sem eftir var af seinni hálfleik voru Perú menn nær stanslaust í sókn en Kasper Schmeichel var frábær í marki Dana og komu Perúmenn boltanum ekki framhjá honum í netið.

Danir áttu nokkrar góðar sóknir þar sem þeir ógnuðu öðru marki en svo fór að hvorugt lið náði að skora, niðurstaðan eins marks sigur Dana.

Danir og Frakkar eru með þrjú stig í C-riðli en Perú og Ástralía án stiga eftir fyrstu umferð riðilsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira