Suárez fór illa með færin en Úrúgvæ skoraði sigurmarkið á síðustu stundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José María Giménez fagnar sigurmarki sínu.
José María Giménez fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Úrúgvæmenn tryggðu sér 1-0 sigur á Egyptalandi í fyrsta leik sínum á HM í fótbolta í Rússlandi í dag en þeir þurftu að bíða lengi eftir markinu.

Það var varnarmaðurinn José María Giménez sem skoraði sigurmarkið á 90. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu.

Það gekk jafnilla hjá þeim Luis Suárez og Mohamed Salah að skora í dag. Suárez klúðraði mörgum dauðafærum inná vellinum en Salah sat allan tímann á varamannabekknum.

Rússland og Úrúgvæ eru því bæði með þrjú stig eftir fyrstu umferðina í A-riðlinum.

Egyptar spiluðu skynsamlega án síns langhættulegasta sóknarmanns og vörðust lengstum mjög vel. Þá vantaði þó tilfinnanlega eitthvað meira bit í sóknir liðsins sem skiluðu litlu sem engu.

Mohamed El Shenawy varði nokkrum sinnum mjög vel í marki Egyptalands og það leit út fyrir að hann væri að fara að halda hreinu. Pressa Úrúgvæmanna jókst hinsvegar í lokin og þeim tókst loksins að ná inn sigurmarkinu á síðustu stundu.

Luis Suárez fékk þrjú algjör dauðafæri í leiknum en tókst ekki að skora. Það má búast við að Barcelona framherjinn sofi lítið í nótt en þó aðeins betur víst að sigurmarkið datt inn í blálokið.

Fyrsta færi Luis Suárez kom í fyrri hálfleik þegar boltinn datt fyrir hann í markteignum en skotið fór í hliðarnetið.

Suárez fékk síðan annað dauðafæri í upphafi seinni hálfleiks en Mohamed El Shenawy lokaði vel á hann og varði. Í þriðja dauðafærinu tók Mohamed El Shenawy síðan boltann af tánum af Suárez.  

Edinson Cavani átti síðan tvö frábær skot á lokakaflanum, það fyrr varði Mohamed El Shenawy mjög vel en það seinna var aukaspyrna sem small í stönginni.

Önnur aukaspyrna skilaði aftur á móti sigurmarkinu. José María Giménez stökk þá hæst allra og skallaði boltann eftir laglega fyrirgjöf frá varamanninum Carlos Sánchez.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira