Fótbolti

Sumarmessan byrjar á Stöð 2 Sport í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benedikt Valsson og Hjörvar Hafliðason verða í Sumarmessunni á meðan HM stendur.
Benedikt Valsson og Hjörvar Hafliðason verða í Sumarmessunni á meðan HM stendur.
Sumarmessan hefur í kvöld göngu sína á ný á Stöð 2 Sport en í þættinum er fjallað um leiki dagsins á HM í knattspyrnu sem hófst í Rússlandi í dag.

Þátturinn er í umsjón þeirra Benedikts Valssonar, sem er þáttastjórnandi, Hjörvars Hafliðasonar sérfræðings og Garðars Arnar Arnarsonar leikstjóra. Fjölmargir aðrir sérfræðingar munu einnig venja komu sína í þáttinn en á meðal þeirra eru Gunnleifur Gunnleifsson, Jóhannes Karl Guðjónsson, Reynir Leósson og Jón Þór Hauksson.

Auk þess að fjalla um HM verður fjölmargt á dagskrá í tengslum við keppnina. Fastir dagskrárliðir verða spurningakeppnin „HjöbbQuiz“ og „Dinamo þrasið“ þar sem sérfræðingar þáttarins takast á um hin ýmsu málefni.

Þá fá fréttamenn Stöðvar 2 Sports í Rússlandi sinn sess en í „rússnesku mínútunni“ verður greint frá hinu ýmsu sem dregið hefur á daga þeirra ytra. Þá munu þeir færa áhorfendum heima í stofu margskonar efni, svo sem viðtöl við leikmenn og þjálfara íslenska liðsins sem mun vitaskuld fá veigamikinn sess í hverjum þætti Sumarmessunnar.

Sumarmessan er oftast á dagskrá klukkan 21.00 þá daga sem keppt er á HM. Í kvöld verður þátturinn raunar á dagskrá klukkan 22.35 en hann hefst strax að Pepsimörkunum loknum á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×