Erlent

Fyrrverandi forseti Panama verður framseldur

Kjartan Kjartansson skrifar
Martinelli er sakaður um spillingu af ýmsu tagi.
Martinelli er sakaður um spillingu af ýmsu tagi. Vísir/EPA
Lögmaður Ricardos Martinelli, fyrrverandi forseta Panama, segir að hann verði framseldur frá Bandaríkjunum til heimalandsins í dag. Martinelli hefur verið í haldi bandarískra yfirvalda vegna ólöglegra símhlerana.

Stjórnvöld í Panama kröfðust þess að Martinelli yrði framseldur í fyrra. Hann er sakaður um að hafa notað almannafé til þess að láta njósna um fleiri en 150 pólitíska keppinauta sína þegar hann var forseti frá 2009 til 2014, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Martinelli var handtekinn í Míamí í júní í fyrra en hann hefur búið þar eftir að hann lét af embætti. Hann er einnig sakaður um fjölda annarra brota, þar á meðal misnotkun almannafjár og sölu á náðunum.

Sjálfur segist Martinelli fórnarlamb pólitískra ofsókna Juan Carlos Verla, núverandi forseta, sem var áður pólitískur bandamaður hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×