Túnis kvaddi HM með sögulegu marki

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wahbi Khazri fagnar sigurmarkinu
Wahbi Khazri fagnar sigurmarkinu Vísir/Getty
Túnis sigraði Panama í lokaleik liðanna á HM í Rússlandi með tveimur mörkum gegn einu. Bæði lið eru úr leik á mótinu.

Það var ljóst fyrir leikinn að bæði lið kæmust ekki áfram í 16-liða úrslitin sama hvernig færi og því aðeins spilað upp á heiðurinn.

Panama var að taka þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti og það voru þeir sem tóku forystuna eftir hálftíma leik. Markið var nokkuð gegn gangi leiksins en Túnis hafði ógnað mun meira.

Jose Rodriguez átti langskot fyrir utan teiginn sem fór af varnarmanni og í netið. Markið var síðan skráð sem sjálfsmark á Yassine Meriah.

Panama fór með forystu inn í hálfleikinn en Túnisar voru ekki lengi að jafna metin í seinni hálfleik. Það gerði Fakhreddine Ben Youssef eftir flotta sóknaruppbyggingu Túnis.

Mark Ben Youssef var mark númer 2500 í sögu HM.

Það var svo Túnis sem átti síðasta orðið, Wahbi Khazri skoraði sigurmarkið á 66. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf inn í teiginn.

Túnis kveður því keppnina með þrjú stig en Panama án stiga.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira