Lífið

Íslenskir tónleikahaldarar hljóta styrk

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson halda úti tónleikastaðnum Havarí sem hlaut styrk í ár.
Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson halda úti tónleikastaðnum Havarí sem hlaut styrk í ár. fréttablaðið/valli
Norræni menningarsjóðurinn hefur úthlutað styrkjum í svokallaðri Púls-áætlun. Um er að ræða styrki til skipuleggjenda tónleika og hljóta að þessu sinni tíu íslenskir skipuleggjendur styrkinn.

„Norræni menningarsjóðurinn er að gera þetta til að byggja upp tónlistarstaði á Norðurlöndunum og stuðla að því að tónleikastaðir geti almennt bókað fleiri bönd af Norðurlöndunum. Þetta opnar á möguleikann á að fá bönd af öllum stærðargráðum til landsins að spila, ekki bara þau stærstu eins og vill oft verða,“ segir María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur.

„Þetta er gert þannig að skipuleggjendur sækja um með sinn tónleikastað – þeir gera fjárhagsáætlun, setja upp dagsetningar og hvaða tónleika þeir ætla að halda – og svo ef þeir komast inn borgar sjóðurinn 50 prósent. Staðirnir sjálfir sjá svo um að greiða rest. Þannig að þetta er mjög veglegt.“

Styrkirnir eru í heild 4,8 milljónir danskra króna og dreifast þeir í ár á 62 skipuleggjendur um öll Norðurlöndin. Verkefnið hefur vaxið töluvert á milli ára – til að mynda hér á landi.

Eistnaflug hljóta styrkinn í ár, en hátíðin var sú eina til að hljóta hann á síðasta ári.
„Við vorum með þetta í fyrra og þá var Eistnaflug eini skipuleggjandinn sem fór inn í þetta prógramm en núna í ár smöluðum við saman fullt af tónleikastöðum alls staðar að af landinu og tíu þeirra komust í gegn. Þannig að nú eru tíu tónleikastaðir komnir í gegn og fá helming af kostnaði við að fá norræna listamenn til landsins greiddan.“

Norrænn þríhyrningur um landið

Meðal skipuleggjenda sem hljóta styrkinn í ár eru Húrra í miðbæ Reykjavíkur, Græni hatturinn á Akureyri og Havarí í Berufirði. Þessir þrír staðir munu nýta styrkinn þannig að þeir norrænu listamenn sem koma til þeirra munu taka tónleikaferðalag á milli staðanna og þar með ná að stoppa við á Suður-, Austur- og Norðurlandi í sömu ferðinni – fara eins konar þríhyrning um landið.

Eistnaflug, Myrkir músíkdagar og Iceland Airwaves eru þær íslensku tónlistarhátíðir sem hljóta styrkinn og munu því geta boðið upp á enn fjölbreyttara úrval efnilegs norræns tónlistarfólks á næstu hátíðum.

Svo eru það Mengi, Iðnó, Salurinn og Norræna húsið sem hljóta veglega styrki en allir þessir skipuleggjendur hafa lengi boðið upp á tónleika frá norrænum, oft minna þekktum, listamönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.