
Gurrý stakk upp á því að fara út að torgi að taka myndir og skömmu eftir að hafa smellt af þeirri fyrstu fór fólk að drífa að.
„Ég var varla búin að ná einni mynd af henni þegar það hrúgast að okkur fólk og byrjar að gera „húið“ og hrópa áfram Ísland!“
„Þá kom að okkur ein kona og spurði hvort litla stelpan hennar mætti fá mynd af sér með okkur og auðvitað fannst okkur það minnsta mál. Við tókum nokkrar myndir af okkur með henni, en það sem við sáum ekki var að á meðan fór að myndast röð til hliðar við okkur. Svo var pikkað í öxlina á mér og eina sem var sagt var „photo please?“.
Stelpurnar fóru að kalla til lýðsins að röðin væri vinstra megin, meira í gríni en alvöru og að hver og einn fengi aðeins eina mynd, slíkt væri áreitið.
„Á meðan á þessu stóð vorum við að skrifa undir leyfi að það mætti nota myndband af okkur í auglýsingu þar sem tökumaðurinn hefði náð svo flottu skoti af okkur. Þetta var fyrir stóran bjórframleiðanda.“

„Þar tók ekkert minna áreiti við, og streymdu að okkur fréttastofur alls staðar að úr heiminum og báðu um viðtöl. Frá Kína, Japan, Mexíkó, Argentínu, Belgíu og svo mætti lengi telja, og að lokum þurftum við að ganga hratt í gegnum þvöguna til að missa ekki af leiknum.“
„Það gekk samt ekkert allt of vel, þar sem á sama tíma var allt vitlaust í myndatökum,“ segir hún.
Þrátt fyrir áreitið og nokkra nýja fylgjendur á samfélagsmiðlum er Hera stolt af því hvað Ísland er að fá mikla landkynningu.
„Það var auðvitað rosalega gaman að sjá hvað fólk hafði mikinn áhuga á okkur og Íslandi. Það vekur með manni smá þjóðarstolt.“