Táningurinn setti met og kom Frökkum áfram í sextán liða úrslitin á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar sigurmarki sinu.
Kylian Mbappe fagnar sigurmarki sinu. Vísir/Getty
Frakkar tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum HM í fótbolta í Rússlandi eftir 1-0 sigur á Perú og Frakkarnir sáu um leið til þess að Perú á ekki lengur möguleika á því að komast áfram.

Táningurinn Kylian Mbappé skoraði eina mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik en hann varð um leið yngsti markaskorari Frakka á HM og fyrsti táningurinn sem skorar fyrir franska landsliðið á stórmóti.

Franskt mark lá í loftinu þegar Kylian Mbappé skoraði markið sitt á 34. mínútu en Frakkarnir voru þá búnir að ógna marki Perú ítrekað.

Kylian Mbappé var frábær í fyrri hálfleik og Antoine Griezmann fékk nokkur góð færi í hálfleiknum. Flottur hálfleikur hjá liði sem leit út fyrir að væri komið í gírinn. Þetta var hinsvegar bara 45 mínútna sýning í dag.





 

Seinni hálfleikurinn hjá Frökkum var mjög lélegur og þar lögðu þeir aðaláhersluna á að loka á Perúmenn. Franska liðið lokaði svæðum og sótti á fáum mönnum. Fyrir vikið reyndist mjög erfitt fyrir Perú að búa til eitthvað.

Perúmenn þurftu stig til að eiga möguleika á því að komast áfram en þeim gekk illa að komast í gegnum sterka vörn franska liðsins.

Skotin þeirra komu flest af löngu færi en eitt langskotanna small þó í utanverðum samskeytunum.

Hugo Llores, markvöður og fyrirliði Frakka, hélt upp á hundraðasta landsleikinn sinn með því að halda marki sínu hreinu. Það reyndi ekki mikið á hann en hann var öruggur í öllum sínum aðgerðum.

Perúmenn standa uppi markalausir og stigalausir eftir 180 mínútur. Leikur liðsins á þó miklu meira skilið en það er frekar leikurinn á móti Dönum sem sá til þess að Perú er á leiðinni heim eftir riðlakeppnina.

Markið sem Kylian Mbappé skoraði var eina mark leiksins en hann fylgdi þá eftir að markvörður Perú hálfvarði skot Olivier Giroud. Mbappé lét boltann ekki fara yfir línuna heldur „stal“ markinu á marklínunni og kom sér um leið í sögubækurnar.









Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira