Alls eru tuttugu viðburðir á dagskrá, þar af tólf tónleikar. Þátttakendur, sem eru um sjötíu koma hvaðanæva og njóta leiðsagnar kennara, fá einkatíma, þjálfun í kammertónlist og hljómsveitarleik, auk fyrirlestra og masterklassa. „Þessir masterklassar eru öllum opnir og ókeypis en kennarinn talar ekki bara til þátttakenda heldur einnig áhorfenda,“ segir Kristín. Viðburðirnir fara fram í Hörpu, Tónskóla Sigursveins og Norræna húsinu.
Samstarf við Menuhin-keppnina
Frá upphafi hefur Akademían verið í samstarfi við Menuhin-fiðlukeppnina. „Sú keppni er haldin annað hvert ár og fyrsti erlendi einleikarinn sem kom á Akademíuna var sigurvegari í þeirri fiðlukeppni. Í ár kemur Ziyu He, kínverskur fiðluleikari sem sigraði í eldri deild keppninnar 2016, þá sextán ára gamall,“ segir Kristín. Ziyu He ásamt píanóleikaranum Vladimir Stoupel leikur verk eftir Schubert, Dvorák, Paganini og Li Zili. Hann kemur einnig fram á lokatónleikum hátíðarinnar.Meðal annarra viðburða má nefna nemendatónleikaseríu sem kallast Rísandi stjörnur þar sem nemendur halda tónleika. Kennarar akademíunnar halda svo sína tónleika en sumir þeirra eru prófessorar við virta tónlistarháskola.
Jórunnar Viðar minnst
Þátttakendur skipa hátíðarhljómsveit Akademíunnar sem lýkur hátíðinni með tónleikum í Eldborg 14. júlí. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Bjarni Frímann Bjarnason en hann er nýráðinn tónlistarstjóri Íslensku óperunnar (og aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands).Meðal verka sem flutt verða er Hetjusinfónía Beethovens og Eldur eftir Jórunni Viðar, en hún samdi verkið við fyrsta íslenska ballettinn sem var fluttur í Þjóðleikhúsinu. „Okkur langaði að tengja hátíðina við fullveldisafmælið og við völdum því þetta verk en Jórunn hefði orðið hundrað ára á þessu ári,“ segir Kristín. Einleikarar á þessum tónleikum eru Ziyu He og hin ellefu ára gamla Ásta Dóra Finnsdóttir.
Dagskrána má finna á vef Tónlistarakademíunnar musicacademy.is.