Innlent

Segir aumingjaskap að hefta ekki jarðakaup útlendinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Björn Halldórsson, bóndi í Vopnafirði.
Björn Halldórsson, bóndi í Vopnafirði. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Einn helsti forystumaður bænda á Austurlandi segir það aumingjaskap stjórnmálamanna að koma ekki taumhaldi á stórfelld jarðakaup útlendinga. Rætt var við Björn Halldórsson, bónda á Akri í Vopnafirði, í fréttum Stöðvar 2. 

Einn ríkasti maður Bretlands, James Ratcliffe, hefur eignast fjórar laxveiðijarðir í Vopnafirði, við Hofsá og Sunnudalsá. Hann keypti einnig Grímsstaði á Fjöllum, jarðaparta við Hafralónsá í Þistilfirði og þar úr sveit heyrist að hann sé núna að reyna að kaupa þar fleiri jarðir.

Grumman Gulfstream einkaþota Jim Ratcliffes á Egilsstaðaflugvelli. Auðjöfurinn hefur sagst í viðtali kaupa jarðirnar af umhyggju fyrir íslenskri náttúru.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Ég held að þetta sé ágætis maður. En það að samfélagið og stjórnkerfið á Íslandi skuli leyfa þetta, - að það skuli ekki taka í taumana og hugsa fram í tímann. 

Þessi maður var hérna dálítið í fyrrasumar, maður sá að þotan var að fljúga hér yfir. Hann er alltaf á einkaþotu hérna. Hann hefur svo sem ekkert, held ég, verið að gera neitt annað en kannski eitthvað að veiða fisk.“ 

Björn hefur um áraraðir verið í forystusveit bænda, bæði á Austurlandi og á landsvísu, og setið í sveitarstjórn Vopnafjarðar. Hann kveðst hafa skilning á því að fólk vilji selja. 

„Þú myndir ekki neita því ef þú fengir tvöfalt verð fyrir íbúðina þína í Reykjavík, eða húsið þitt. En það gildir bara annað, finnst mér, um land.“

Björn bendir inn í Vopnafjörð þar sem jarðir Ratcliffes eru. Sú næsta er þrjá kílómetra frá jörð Björns.Stöð 2/Arnar Halldósson.
Björn segir full rök fyrir því að stjórnvöld grípi í taumana með sama hætti og komið sé í veg fyrir að útlendingar eignist fiskimiðin. 

„Fiskveiðiauðlindina. En það eru engin ákvæði um það að auðlind á landi sé með nokkrum hætti hægt að hefta, nema þá hugsanlega aðila sem ekki eru innan EES-svæðisins.“ 

-Er þetta að skaða sveitirnar nú þegar? 

„Það er engin spurning. Það er algerlega undir eigendum jarðanna komið hvort þær eru setnar, hvort þær eru nýttar, hvort það er einhver rekstur.“

Séð yfir Hofsárdal í átt til Sunnudals. Veiðihús Hofsár fyrir miðri mynd.Stöð 2/Arnar Halldórsson
Björn segir tekjur sveitarfélagsins skerðast þegar starfsemi hætti á jörðum. 

„Þá er ekkert annað en fasteignagjöld. Það eru engar aðrar tekjur af þessu fyrir samfélögin, þessi litlu samfélög.“

Séð inn Hofsárdal. Bærinn Bustarfell fyrir miðri mynd.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hann segir það aumingjaskap stjórnmálamanna að koma ekki í veg fyrir að verðmæti í formi lands færist í hendur útlendinga. 

„Að þau skuli ekki vera tryggð í eigu þjóðarinnar með einhverjum hætti. Mér finnst það. Mér finnst það bara aumingjaskapur dauðans,“ segir Björn Halldórsson. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×