Neymar allt í öllu þegar Brasilíumenn slógu út Mexíkóa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og Paulinho fagna.
Neymar og Paulinho fagna. Vísir/Getty
Brasilíumenn eru komnir í átta liða úrslitin á HM í fótbolta í Rússlandi eftir 2-0 sigur á Mexíkó í fyrri leik dagsins í sextán liða úrslitum keppninnar.

Mörk Brasilíumanna skoruðu Neymar og Roberto Firmino en Liverpool maðurinn innsiglaði sigurinn skömmu eftir að hann hafði komið inná sem varamaður.

Mexíkómenn þurfa því enn á ný að sætta sig við að detta út í sextán liða úrslitum á HM. Það er þeirra hlutskipti á sjöundu heimsmeistarakeppninni í röð.

Þetta er aftur á móti sjöunda heimsmeistaramótið í röð þar sem Brasilíumenn verða með í átta liða úrslitunum. Brasilíska liðið lítur líka mjög vel út. Þeir eru eins og oft áður með frábæra menn í sókninni til að gera út um leikina en grunnurinn að liðinu er traustur og þéttur varnarleikur sem gefur andstæðingum þeirra fá góð færi.

Neymar bauð upp á sína vanalegu sýningu, frábær tilþrif í bland við ótrúlegan leikaraskap. Hann skoraði fyrra markið úr sókn sem hann bjó til sjálfur og seinna markið kom síðan eftir skot frá honum.

Guillermo Ochoa stóð sig frábærlega í marki Mexíkó en hann gat ekki komið í veg fyrir mörkin.



https://twitter.com/BBCMOTD/status/1013812828115959812https://twitter.com/BBCMOTD/status/1013812828115959812

Mexíkóar byrjuðu leikinn mjög vel og voru nálægt því að galopna brasilísku vörnina á fyrstu tuttugu mínútunum.

Brasilíumenn tóku þá öll völd á vellinum og fengu fjölda færa fram að hálfleik. Guillermo Ochoa varði þá vel og tókst að halda hreinu fram að leikhlé.

Stórsókn Brasilíumanna hélt áfram í seinni hálfleik og fyrsta markið kom svo á 51. mínútu. Neymar skoraði þá af stuttu færi eftir sendingu frá Willian en frábær hælspyrna hafði komið Willan af stað inn í teig.

Brasilíumenn fengu færi til að bæta við mörkum en seinna markið kom þó ekki fyrr en á 88. mínútu. Það skoraði Roberto Firmino tveimur mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira