Erlent

Bandarískur ISIS-liði í haldi Kúrda

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlenskir Kúrdar sitja uppi með hundruð erlendra vígamanna og þurfa sjálfir að borga fangelsun þeirra.
Sýrlenskir Kúrdar sitja uppi með hundruð erlendra vígamanna og þurfa sjálfir að borga fangelsun þeirra. Vísir/EPA
Syrian Democratic Forces, sem leiddar eru af sýrlenskum Kúrdum og studdar af Bandaríkjunum, hafa handsamað bandarískan ISIS-liða í Sýrlandi. Ibraheem Musaibli, sem er 28 ára gamall, er einn af nokkrum tugum Bandaríkjamanna sem taldir eru hafa ferðast til Sýrlands og gengið til liðs við Íslamska ríkið. Hann er talinn hafa ferðast til Sýrlands árið 2015.

Musaibli var handsamaður í Efratdalnum fyrr í mánuðinum þar sem SDF vinnur að því að ná tökum á síðasta yfirráðasvæði ISIS í landinu.

Samkvæmt umfjöllun New York Times er staðfest að 71 bandaríkjamaður hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin. Þar af eru minnst 24 látnir, 18 hafa verið handsamaðir eða hafa snúið aftur til Bandaríkjanna og ekkert er vitað um 29.



Á einhverjum tímapunkti mun Musaibli hafa fengið nóg af verunni í Sýrlandi og vildi hann komast þaðan. Fjölskylda hans hafði samband við Alríkislögreglu Bandaríkjanna sem bauð honum far aftur til Bandaríkjanna í stað þess að hann gæfi sig fram. Musaibli neitaði.

Yfirvöld Bandaríkjanna eru sögð vinna að því að flytja hann heim ásamt bandarískri konu sem gekkst til liðs við samtökin og ákæra þau. Það hefur þó erfitt að ákæra fyrrverandi ISIS-liða vegna skorts á sönnungargögnum gegn þeim. Bretar, Frakkar og aðrar þjóðir hafa til dæmis neitað að taka á móti fjölmörgum ríkisborgurum sínum sem börðust fyrir Íslamska ríkið af ótta við að þurfa að sleppa þeim lausum. Sýrlenskir Kúrdar sitja því uppi með hundruð erlendra vígamanna og þurfa sjálfir að borga fangelsun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×