Íslenski boltinn

ÍR vann fallslaginn á Grenivík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Andri Jónasson og Helgi Freyr Þorsteinsson spiluðu allan leikinn fyrir ÍR í dag.
Andri Jónasson og Helgi Freyr Þorsteinsson spiluðu allan leikinn fyrir ÍR í dag. vísir
ÍR sótti mikilvægan sigur á Grenivík í fallbaráttunni í Inkasso deild karla. Þór hélt í við liðin í toppbaráttunni með sigur á Leikni.

Liðin tvö sem sitja í fallsæti deildarinnar, ÍR og Magni, mættust á Grenivík í dag. Eitt stig skildi liðin að fyrir leikinn, ÍR með 7 og Magni 6.

Nóg var af fjöri í fyrri hálfleik en hvorugt lið náði að setja mark á leikinn. Fyrsta markið kom ekki fyrr en á 85. mínútu þegar ÍR fékk vítaspyrnu og Máni Austmann Hilmarsson skoraði örugglega á spyrnunni. Heimamenn voru orðnir einum manni færri eftir að Ívar Örn Árnason var rekinn út af á 60. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

Heimamenn áttu færi til þess að jafna leikinn undir lokin en ÍR-ingar héldu út og náðu mikilvægum stigum í botnbaráttunni. Þeir eru nú jafnir Njarðvík að stigum, en eru áfram í fallsæti á verri markatölu.

Hitt liðið úr Breiðholtinu, Leiknir, var á heimavelli þegar þeir mættu Þór frá Akureyri.

Gestirnir voru líklegri í fyrri hálfleik en það var markalaust þegar flautað var til leikhlés. Bæði lið áttu sín færi í seinni hálfleik en það voru Þórsarar sem skoruðu fyrsta markið, Ignacio Echevarria skoraði eftir undirbúning Alvaro Montejo á 84. mínútu.

Það reyndist verða eina mark leiksins, 0-1 sigur Þórs sem heldur stöðu sinni í fjórða sæti en fer í 23 stig, líkt og ÍA og Víkingur Ó. í 2. og 3. sæti. HK er með tveggja stiga forystu á toppnum.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×