Frakkar Heimsmeistarar í annað sinn

Dagur Lárusson skrifar
Frakkar fagna.
Frakkar fagna. vísir/getty
Frakkar eru Heimsmeistarar í knattspyrnu eftir 4-2 sigur á Króötum í mögnuðum úrslitaleik í Moskvu þar sem Pogba, Mbappe og Griezmann skoruðu allir.

 

Í byrjun leiks voru það Króatar sem voru með öll völdin á vellinum, þeir sóttu stíft og pressuðu Frakkana hátt á vellinum. Þegar leið þó á leikinn fóru Frakkar að sækja meira og fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig á 18. mínútu. Mikið var þó deilt um það á netheimum hvort að Pitana dómari hefði átt að dæma aukaspyrnu.

 

Griezmann tók aukaspyrnuna og lyfti boltanum inná teig þar sem Mario Mandzukic skallaði boltann og fleytti honum framhjá sínum eigin markmanni og Frakkar því komnir yfir.

 

Þetta var ekki í fyrsta sinn á HM þar sem Króatar lenntu undir og í öll þau skipti þar sem þeir hafa lennt undir á HM í vetur þá hafa þeir svarað fljótt fyrir sig og var engin undantekning á því í dag. Króatar fengu nefnilega aukaspyrnu sjálfir á 28. mínútu sem Modric tók og setti boltann beint á kollinn á Lovren sem skallaði boltann út í teig og barst boltinn til Ivan Perisic sem tók gott skot að marki, framhjá Hugo Lloris og jafnaði hann metin.

 

Dramatíkin var þó ekki búin í fyrri hálfleiknum því nokkrum mínútum seinna fengu Frakkar hornspyrnu sem Griezmann tók og virtist boltinn fara í höndina á Ivan Perisic á teignum. Liðsmenn Frakka hópuðust að dómaranum sem endaði á því að kalla til myndbandsdómgæslu og fór hann því afsíðis og skoðaði atvikið sjálfur. Eftir að hafa skoðað atvikið sjálfur þá dæmdi hann víti og á punktinn steig Griezmann sem skoraði af öryggi og var staðan 2-1 í leikhlé.

 

Aftur voru það Króatar sem byrjuðu hálfleikinn betur og voru líklegir til þess að jafna metin fyrstu mínúturnar í seinni hálfleiknum og virtust Frakkar kærulausir.

 

Frakkar náðu þó að komast yfir þennan góða kafla hjá Króötum og skoruðu sitt þriðja mark 59. mínútu. Þá fékk Paul Pogba boltann á miðjunni, gaf frábæra sendingu upp á Mbappe sem gaf boltann út á teig þar sem Paul Pogba var mættur og setti boltann í netið í annarri tilraun.

 

Eftir þetta mark stefndi aðeins í ein úrslit og voru Króatar í raun búnir að gefast upp og varð það augljóst nokkrum mínútum seinna þegar hinn 19 ára gamli Mbappe skroaði fjórða mark Frakka og fjórða mark sitt á HM.

 

Fyrirliði Frakka, Hugo Lloris, gerði sig þó sekan um slæm mistök þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum þegar hann ætlaði að leika á Mario Mandzukic sem lét ekki blekkja sig, vann boltann af Lloris og skoraði og minnkaði muninn.

 

Þessi mistök Lloris kostuðu þó ekki neitt þar sem allur vindur var farinn úr Króötum og því voru það Frakkar sem fögnuðu í leikslok og eru því Heimsmeistarar í annað sinn.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira