Í ræðu sinni talaði María um ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu uppeldisföður síns og hvaða áhrif það hafði á hana. Hún segist hafa ætlað að harka ofbeldið af sér og lokaði á allar tilfinningar eftir tveggja ára ferli innan réttarkerfisins, en uppeldisfaðir hennar var sýknaður í málinu.
Það var því kærkomið þegar Druslugangan hafði samband við hana árið 2013 og bað hana um að vera talskona göngunnar. Hún hafði þá tjáð sig um ofbeldið í fjölmiðlum og tilboðið komið flatt upp á hana, en hún hafi fundið kraftinn til að horfast í augu við áhrif ofbeldisins.
„Með hjálp Drusluteymisins, sem ég elska af öllu hjarta, og með því að fara í ótal viðtöl til að ræða mikilvægi göngunnar og þess að uppræta ofbeldið fann ég að hægt og rólega gat ég skorið af mér þau þykku lög sem ég var búin að smyrja utan um mig og berskjaldaði mig alltaf meir og meir. Það var dýrmætt.“
Í ræðunni segir María það vera mikilvægt að umræðan sé opnuð, því það að geta rætt opinskátt um ofbeldið geti verið mikilvægt skref í bataferli þolenda. Hennar eigin heilun hafi falist í því að tjá sig og það séu mistök að loka tilfinningar inni.
„Tilfinningar eru nefnilega eins og suðupottur, ef maður setur lokið á mun alltaf flæða upp úr.“
Samfélagið þurfi að ákveða hvernig tekið sé á móti gerendum
María segir þróun göngunnar hafa verið ótrúlega og hún hafi verið stór þáttur í því að þolendur hafi loksins fundið hugrekkið til að stíga fram. Samstaðan sé einstök og það veiti þolendum kraft til þess að rjúfa þögnina sem hefur fengið að ráða för alltof lengi.Þá segir hún að samfélagið þurfi að finna út úr því hvernig tekið verði á móti þeim sem beita ofbeldi. Það sé ekki mikið rými til þess að viðurkenna brot og það sé auðveldara fyrir gerendur að neita fyrir verknaðinn. Í kjölfarið brotaþolar ekki þá viðurkenningu á verknaðinum, sem getur verið mikilvægur þáttur í því að vinna úr slíku.
„Mig dreymir um samfélag þar sem hægt er að takast á við vandann á annan hátt, mig dreymir um mun kröftugri fræðslu um samskipti og kynlíf.“, segir María og bætir við að þriðjungur gerenda hér á landi séu börn í skilningi laga.
Með tilkomu Druslugöngunnar segir hún hafa skapast vettvangur til þess að ræða kynferðisbrot opinskátt og fræða aðstandendur um þessi mál. Hún hafi sjálf öðlast það tækifæri með göngunni og endurheimt samskipti við sína nánustu. Hún hafi lært að tala um ofbeldið og það hafi orðið til þess að hún hafi náð miklum bata.
„Ég er ekki að segja að ég sé orðin fullkomlega heil, en ofbeldið sem eitt sinn skilgreindi hver ég er, skilgreinir mig ekki lengur.“