Erlent

Ísraleski herinn bjargaði 800 manns frá Sýrlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hvítu hjálmarnir eru sjálfboðaliðar sem hafa það að markmiði að bjarga fólki á stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi.
Hvítu hjálmarnir eru sjálfboðaliðar sem hafa það að markmiði að bjarga fólki á stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi. Vísir/EPA
Ísraelski herinn flutti 800 Sýrlendinga frá Sýrlandi í gærkvöldi til Jórdaníu. Talsmenn ísraelska hersins segjast hafa gert það að beiðni yfirvalda í Bandaríkjunum og Evrópu. Var fólkið flutt frá Sýrlandi til Jórdaníu í gegnum Ísrael.

Um var að ræða meðlimi samtaka Hvítu hjálmanna og fjölskyldur þeirra. Hvítu hjálmarnir eru sjálfboðaliðar sem hafa það að markmiði að bjarga fólki á stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi. Stuðningsmenn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, segja Hvítu hjálmanna aðstoða uppreisnarmenn í Sýrlandi.

Fólkið sem ísraelski herinn flutti burt hafði starfað á svæði sem er undir stjórn andstæðinga Sýrlandsstjórnar suðvestur af Sýrlandi en stjórnarherinn hafði króað þau af á svæðinu.

Ísraelski herinn sendi út tilkynningu á Twitter þar sem greint var frá því að ísraelski herinn hefði bjargað meðlimum sýrlenskra samtaka og fjölskyldum þeirra og að fólkið hefði verið í bráðri hættu.

BBC tekur fram að þó að Ísrael hafi ekki skipt sér beint af átökunum í Sýrlandi, þá hafi þjóðirnar tvær verið í stríði í áratugi.

Þrátt fyrir þessi afskipti í gær segist ísraelski herinn ætla að halda uppteknum hætti og skipta sér ekki af átökunum í Sýrlandi.

Yfirvöld í Jórdaníu hafa staðfest að þau gáfu Sameinuðu þjóðunum heimild til að skipuleggja brottflutning á 800 sýrlenskum borgurum til landsins sem munu síðar fá hæli á vesturlöndum. Sögðu yfirvöld í Jórdaníu að Bretar, Þjóðverjar og Kanadamenn hefðu bundið sig lagalega til að taka við fólkinu á tilteknum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×