Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Breiðablik 1-3 │Loksins skoraði Keflavík en það dugði ekki til

Gabríel Sighvatsson á Nettóvellinum í Keflavík skrifar
Úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli
Úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli vísir/bára
Keflavík mætti Breiðablik í kvöld í 14. umferð Pepsí-deildar karla. Keflavík var sigurlaust í deildinni en Breiðablik í toppbaráttu.

Leikurinn byrjaði rólega en Breiðablik náði stjórn á spilinu snemma leiks. Þegar leið á leikinn fór Breiðablik að skapa sér fleiri færi en inn vildi boltinn ekki.

Breiðablik hélt áfram að ógna og það dró til tíðinda á 55. mínútu. Þá átti Aron Bjarnason sprett upp kantinn, renndi boltanum fyrir markið og Gísli Eyjólfsson var réttur maður á réttum stað til að klára færið. Staðan 1-0 fyrir gestina.

Það leit út fyrir að Keflavík myndi tapa 7. leik sínum í röð eftir þetta mark og það varð raunin.

Breiðablik skoraði annað mark sitt stuttu seinna eftir aðra skyndisókn og var þar Thomas Mikkelsen að verki. Þá héldu margir líklegast að leik væri lokið, Keflvíkingar virkuðu þreyttir.

Heimamenn fengu þó líflínu í lok leiks þegar Ívar Orri Kristjánsson dæmdi víti. Á punktinn steig Hólmar Örn Rúnarsson og skoraði af öryggi. Fyrsta mark Keflvíkinga síðan 4. júní.

Það var ekki nóg fyrir heimamenn því í uppbótartíma fær Breiðablik einnig vítaspyrnu eftir brot Sindra Kristins, í markinu á Davíði Erni. Heimamenn voru ósáttir og vildu meina að Sindri hefði farið í boltann.

Thomas Mikkelsen skoraði úr vítinu, þriðja mark Blikanna og annað mark Danans í kvöld sem byrjar mjög vel hjá Kópavogsliðinu. Lokatölur 3-1, Breiðablik í vil.

Af hverju vann Breiðablik?

Breiðablik stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik en náði ekki að klára færin sín. Í seinni hálfleik var komin þreyta í andstæðingana og Breiðablik náði að refsa með skyndisóknum sínum. Þeir höfðu meiri orku í seinni hálfleik og náðu að klára leikinn með umdeildum vítaspyrnudómi.

Hvað gekk illa?

Breiðablik náði ekki að nýta færin sín í fyrri hálfleik og það hefði verið sterkt fyrir þá að vera yfir í hálfleik en svo var ekki. Keflvíkingar komu af krafti inn í seinni hálfleik en voru ekki að skapa sér mörg færi yfirhöfuð.

Vörn Keflvíkinga var í vandræðum allan leikinn og þeir voru orðnir fáliðaðir þegar Breiðablik skoraði fyrstu tvö mörkin sín.

Hverjir stóðu upp úr?

Gísli Eyjólfsson skapaði mikla hættu og skoraði eitt mark í leiknum. Aron Bjarnason átti stoðsendinguna og átti hann aðra stuttu seinna á Thomas Mikkelsen. Bæði mörkin voru svipuð og komu eftir góðan sprett frá Aroni.

Thomas Mikkelsen átti eftir að koma meira við sögu en hann skoraði þriðja mark Blika til að klára leikinn og var ógnandi í leiknum og heimamenn í vandræðum með hann.

Hvað gerist næst?

Keflavík er enn fast við botninn og í leit að sínum fyrsta sigri. Breiðablik heldur í við toppliðin og hugsar sér gott til glóðarinnar eftir að Valur missteig sig. Bæði lið fá frí yfir verslunarmannahelgina en Keflavík á útileik við Fjölni á miðvikudaginn. Breiðablik tekur á móti KR á þriðjudaginn.

Sindri Kristinn: Ekki að kenna Ívari um tapið

„Ég er gífurlega ósáttur, við fórum í þennan leik til að vinna hann. 0-0 í hálfleik gefur okkur möguleika á að vinna leikinn. en fáum á okkur mark og strax aftur í kjölfarið og þá er þetta orðið erfitt. Svo skorum við og erum í séns aftur.“ sagði Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, í leikslok.

Hann var ekki sáttur með að Ívar Orri Kristjánsson skyldi dæma víti á sig í uppbótartíma leiksins og segir að dómurinn hafi verið rangur.

„Mjög umdeildur dómur hjá Ívari og strangur. Ég verð að segja að ég tók boltann bara og síðan kemur Davíð og sparkar í boltann og fer síðan niður, ég er ekki að kenna Ívari um tapið, ég veit ekki hvort við hefðum skorað en hann minnkaði möguleikana.“

„Ég er mjög ósáttur með að hann hafi dæmt vítið. Ég held hann viti það sjálfur að þetta hafi ekki verið víti, hann hikaði. Ég er ekki að kenna Ívari um neitt, við vorum sjálfum okkur verstir í þessum tveimur mörkum. Ívar er frábær dómari en ég held að hann hafi haft rangt fyrir sér þarna.“

„Við áttum séns í stöðunni 2-1 en við áttum engin hættuleg færi. Gulli varði allt í markinu hjá þeim nema vítið en þetta er mjög leiðinlegt að fá þetta víti á okkur í lokin.“

 

Eysteinn: Fyrirliðinn okkar á leið í bann fyrir mótmæli

„Ég sé ekki eftir neinu hvað varðar uppsetningu á leiknum og slíkt en eftir að markið kemur, eitt og svo tvö, þá er þetta erfitt. Ég verð að gefa mönnum það að þeir slitnuðu ekki í sundur, við héldum áfram. Mörkin koma reyndar af því við slitnum aðeins í sundur, við þurfum að passa upp á það,” sagði Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur, í leikslok.

„Þetta er mjög svekkjandi en ég sé ekki eftir hvernig ég setti leikinn upp.“

Keflavík minnkaði muninn í lok leiksins en það vantaði eitthvað til að jafna leikinn og í uppbótartíma fá þeir víti á sig í staðinn.

„Við setjum liðið auðvitað upp en það vantaði upp á að klára hlaupin inn fyrir vörnina og aðeins betri boltar.“

„Þið kíkið á það, ég treysti því. Það er auðvitað mjög sárt ef þetta var ekki víti, eins og þetta leit út fyrir mér, að fyrirliðinn okkar skuli vera að fara í bann fyrir mótmæli ef þetta er rangur dómur. En ég treysti því að þið farið yfir þetta. Mér fannst hann mjög góður í leiknum, fyrir utan vítið ef þetta var rangur dómur.“

 

Ágúst: Það er best í heimi!

„Þetta var flottur sigur hjá okkur, við spiluðum vel og sköpuðum okkur fullt af færum. Keflavík gefur allt í þennan leik. Þegar þeir minnka muninn í 2-1 þá fundu þeir smjörþefinn af einhverju, að fá stig eða meira þeir settu pressu á okkur og það var kraftur í þeim. Svo klárum við þetta í lokin með þriðja markinu,” sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Blika.

„Við vorum dálítið ragir og hefðum átt að skjóta meira á markið og nýta yfirburðina í fyrri hálfleik. Svo kemur seinni hálfleikur og þá er jafnræði með liðunum. En kærkomin 3 stig hérna og Keflavíkur liðið stóð sig frábærlega, það var kraftur í þeim og þeir sýndu það að þeir eiga heima í þessari deild, að mínu mati.“

„Þegar liðið reynir að fara ofar á okkur þá opnast þeir aðeins og við nýtum það, við erum frábærir í skyndisóknum og skorum tvö frábær mörk sem skildu liðin að þar. Svo voru það þessi tvö víti í lokin. Heilt yfir er ég sáttur með 3 stig og vera ennþá í baráttunni í toppnum, það er það sem er mikilvægast.“

„Ég sá þetta ekki alveg, mér fannst þetta vera 50/50 bolti. Sindri, markmaður hjá Keflavík, segir að hann hafi alltaf verið með boltann og við tökum það alveg gilt en við fáum vítið og skorum úr því og það telur mest fyrir okkur.“

„Það er mikilvægt að vinna leiki, það er best í heimi! Það er hundleiðinlegt að tapa en við erum á góði róli núna og við þurfum að halda því áfram til að vera í toppbaráttunni en frábær þrjú stig í Keflavík.“ sagði Ágúst að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira