Lífið

Öðruvísi að spila fyrir eintóma hausa

Benedikt Bóas skrifar
Daði Freyr bar á sig sólarvörn áður en hann spilaði. Hann segir ótrúlegan mun á sólinni í Kambódíu og þeirri íslensku. Jarðböðin voru vel sótt á meðan tónleikarnir stóðu og skemmtu gestir sér konunglega.
Daði Freyr bar á sig sólarvörn áður en hann spilaði. Hann segir ótrúlegan mun á sólinni í Kambódíu og þeirri íslensku. Jarðböðin voru vel sótt á meðan tónleikarnir stóðu og skemmtu gestir sér konunglega. Heiða Halldórsdóttir
„Það var öðruvísi að spila fyrir fólk þar sem maður sér bara í hausinn. Kannski var fólk á fullu að dansa ofan í en maður sá það ekki. Þetta voru samt hressir hausar sýndist mér,“ segir tónlistarmaðurinn Daði Freyr en hann tróð upp í Jarðböðunum í Mývatnssveit á föstudag.

Daði hafði verið í útilegu með sínu fólki en kom í sveitina snemma og fóru þau Daði og Árný Fjóla, unnusta hans, ofan í Jarðböðin fyrir tónleikana. Mikill fjöldi var þar samankominn og skemmtu ungir sem aldnir sér konunglega á þessum klukkutímalöngu tónleikum.

„Það var mjög skemmtilegt að spila hérna. Það var geggjað veður sem gerði þetta skemmtilegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Mývatnssveit, ég hef svo lítið ferðast um Norðurland. Það hefði verið gaman að vera hérna í þrjá daga og skoða því hér er greinilega margt að sjá,“ segir hann og Árný tekur undir.



Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn, var komin ofan í ásamt fríðu föruneyti.Heiða Halldórsdóttir
Hún bætir við að það sé mjög gott að vera á Íslandi en þau eru búin að vera hér á landi í rúma tvo mánuði. Þau halda af landi brott eftir tæpa viku en byrja á því að fara í brúðkaup til systur Daða í Búlgaríu. „Við erum mjög brött. Það er mjög gott að vera á Íslandi.

„En eitt sem er fyndið er að við vorum í Asíu í 40 stiga hita og komum svo til Íslands og sólbrunnum nánast í rigningu. Það er allt öðruvísi loftið hérna. Maður fattar ekki alveg að setja á sig sólarvörn,“ segir hún.

„Það verður geggjað að fara til Búlgaríu í brúðkaup. Öll stórfjölskyldan að fara. Síðan er það bara Berlín,“ segir Daði. „Eða stefnan er að búa áfram þar en við erum ekki með neina íbúð reyndar. Svo ef einhver er með íbúð í Berlín handa okkur má sá hinn sami hafa samband,“ segir hann.

Daði spilaði í rúman klukkutíma og tók nokkur ný lög, meðal annars Skiptir ekki máli sem er hans nýjasta. Aðspurður hvort plata sé væntanleg segir hann að stefnan sé sett á útgáfu fyrir næsta sumar.

„Að öllum líkindum. Þá ætla ég að fá til mín góða gesti. Ég er að skora á sjálfan mig, ég er svo gjarn á það að sitja einn í stúdíói, semja lag og gera allt sjálfur. Núna ætla ég að fá til mín skemmtilega og góða tónlistarmenn til að spila með mér. Þetta er þægileg staða sem ég er í. Ég hef aðgang að alls konar skemmtilegu fólki sem kann að gera flotta tónlist og það er það sem mig langar að gera. Alls konar.“

Stefán Jakobsson, söngvari Dimmu og ferðaþjónustubóndi í Mývatnssveit, lét sig ekki vanta á tónleikana.Heiða Halldórsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×