Meðfylgjandi mynd sýnir kort sem CNN birti í gær, þar kemur fram hvaða fyrirtæki framleiddi sprengjurnar í hverju tilfelli.
Heimildamenn CNN fullyrða að þessar sprengjur hefðu aldrei endað í höndum Sáda ef ríkisstjórn Donalds Trump hefði ekki afnumið takmarkanir á vopnasölu sem voru innleiddar á valdatíð Baracks Obama.

Sádar vörpuðu slíkri sprengju á jarðarfaragesti í Jemen árið 2016, með þeim afleiðingum að 155 almennir borgarar fórust. Nokkrum mánuðum áður höfðu 97 almennir borgarar farist eftir að sprengja af sömu gerð féll á útimarkað.
Eftir þetta mikla mannfall ákvað ríkisstjórn Obama að stöðva sölu á þessum sprengjum til Sádí Arabíu. Rúmu ári seinna ákvað Rex Tillerson, þáverandi utanríkisráðherra Trumps, að afturkalla ákvörðun Obama og auka aftur vopnasölu til Sáda.
Í kjölfarið vörpuðu Sádar MK82 sprengju á skólarútu með þeim afleiðingum að á fimmta tug barna lét lífið.
CNN bendir á að James Mattis, varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Trumps, hefur viðurkennt að Bandaríkjamenn aðstoði Sáda við að velja skotmörk til að varpa sprengjum á í Jemen. Í ljósi þessara upplýsinga segir CNN að heimildarmenn sínir innan stjórnkerfisins telji Bandaríkin bera einhverskonar siðferðislega ábyrgð á barnsmorðum og öðrum stríðsglæpum Sáda í Jemen.