Erlent

Bandaríkjaforseti kallar fyrrverandi starfsmann sinn „hund“

Kjartan Kjartansson skrifar
Á upptöku af símtali heyrist Trump segja Omarosu að hann hafi ekki vitað af því að Kelly starfsmannastjóri hafi ætlað að reka hana. Omarosa segist telja að Trump hafi skipað Kelly að gera það.
Á upptöku af símtali heyrist Trump segja Omarosu að hann hafi ekki vitað af því að Kelly starfsmannastjóri hafi ætlað að reka hana. Omarosa segist telja að Trump hafi skipað Kelly að gera það. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti úthúðaði fyrrverandi aðstoðarkonu sinni á Twitter í dag. Kallaði forsetinn hana „klikkað, vælandi skítseyði“ og „hund“. Hún sakar Trump um að vera rasisti í nýrri bók.

Omarosa Manigault Newman var rekin úr Hvíta húsinu í fyrra. Hún starfaði þar sem sérfræðingur á samskiptasviði en hún þekkti Trump frá því að hún var þátttakandi í raunveruleikaþættinum „Lærlingnum“ á sínum tíma.

Í viðtölum fyrir væntanlega bók um tímann í Hvíta húsinu hefur Omarosa lýst Trump sem „vanstilltum“ og „í andlegri hnignun“. Þá segist hún hafa heyrt upptöku af Trump fara niðrandi orðum um blökkumenn við tökur á „Lærlingnum“. Forsetinn sé í raun rasisti.

Trump hefur brugðist ókvæða við ummælum Omarosa um sig og kallað hana öllum illum nöfnum, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

„Þegar maður gefur klikkuðu, vælandi skítseyði tækifæri og gefur henni vinnu í Hvíta húsinu, býst ég við að það hafi bara ekki gengið upp. Vel gert hjá Kelly herforingja að reka þennan hund snarlega!“ tísti Trump og vísaði til Johns Kelly, stafsmannastjóra Hvíta hússins.

Þá fullyrti forsetinn að framleiðandi „Lærlingsins“ hefði hringt í sig til þess að segja sér að engar upptökur væru til af honum að nota orðið „negri“, þvert á það sem Omarosa hefði sagt. Kallaði hann hana „klikkaða“ og „ruglaða“.

Segist hafa viljað halda henni vegna þess að hún talaði vel um hann

Á Twitter hefur Trump dregið upp þá mynd að hann hafi gefið Omarosu vinnu í Hvíta húsinu þrátt fyrir galla hennar vegna þess að hún hafi talað vel um hann.

„Ég sagði honum [Kelly] að reyna að leysa úr þessu ef það væri mögulegt vegna þess að hún sagði FRÁBÆRA hluti um mig ― þangað til hún var rekin!“ tísti forseti Bandaríkjanna.

Hann fullyrti jafnframt að Omarosa hefði skrifað undir samning um þagmælsku þegar hún hóf störf í Hvíta húsinu. Sérfræðingar í siðfræði í opinberri stjórnsýslu hafa dregið í efa að löglegt sé að láta opinbera embættismenn skrifa undir slíka samninga.


Tengdar fréttir

Omarosa segir Trump vera rasista

Omarosa Manigault Newman, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins og þar áður keppandi í raunveruleikasjónvarpsþáttum Trump, segir að hann hafi ítrekað notað "N-orðið“ við tökur Apprentice þáttanna og það sé til á upptökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×