Fótbolti

Hannes ætti að verða tilbúinn í leikinn gegn Sviss

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hannes Þór Halldórsson var hetja Íslands í fyrsta leik á HM í Rússlandi og hefur varið mark Íslands síðustu ár.
Hannes Þór Halldórsson var hetja Íslands í fyrsta leik á HM í Rússlandi og hefur varið mark Íslands síðustu ár. Vísir/Getty
Hannes Þór Halldórsson ætti að verða heill heilsu og tilbúinn til þess að byrja landsleiki Íslands gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni í byrjun september. Þetta sagði hann við Morgunblaðið.

Hannes hefur misst af síðustu tveimur leikjum Qarabag vegna nárameiðsla. Hann vonast til þess að geta mætt í markið í seinni umspilsleik Qarabag og Sheriff um sæti í Evrópudeildinni á morgun.

„Þetta lítur vel út. Ég vona að ég verði klár núna á fimmtudaginn,“ sagði Hannes við Morgunblaðið í gær.

Ísland spilar fyrstu leiki sína í Þjóðadeildinni 8. og 11. september. Fyrri leikurinn er gegn Sviss ytra og sá seinni á móti Belgíu á Laugardalsvelli.

Rúnar Alex Rúnarsson og Frederik Schram eru líka í hópnum líkt og á HM í Rússlandi. Rúnar Alex hefur byrjað mjög vel með Dijon í Frakklandi og gæti byrjað í markinu ef Hannes verður ekki klár.

Íslenska liðið hefur orðið fyrir meiðslaáföllum síðustu daga, Emil Hallfreðsson og Jóhann Berg Guðmundsson meiddust báðir um helgina. Emil sagði í gær að hann væri bjartsýnn á að ná landsleikjunum en ekkert er enn staðfest um stöðu Jóhanns Bergs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×