Fótbolti

Emil eftir læknisskoðun: Bjartsýnn á að ná landsleikjunum gegn Belgíu og Sviss

Anton Ingi Leifsson skrifar
Emil Hallfreðsson er bjartsýnn á að ná leikjum íslenska landsliðsins gegn Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni eftir skoðun lækna á Ítalíu í dag.

Emil fór snemma af velli meiddur í öðrum leik sínum með Frosinone um helgina og segist hafa fundið strax til í lærinu. Landsleikirnir voru í huga hans er meiðslin komu upp.

„Ég hugsaði að ég yrði aðeins frá sem er algjör bömmer en svo hugsaði ég að það eru landsleikir í næstu viku. Það væru tvöföld leiðindi,” sagði Emil í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég er nokkuð brattur á þetta,” en hver var nákvæm greining ítölsku læknanna sem skoðuðu Emil?

„Ég kann ekki að segja þetta einu sinni á íslensku,” sagði Emil og hló. „Þetta er aftan í læri og smá áreynsla. Stífleiki. Þetta nær því ekki að vera tognun.”

Emil skipti yfir til Frosinone í sumar frá Udinese og er nú bara að koma sér fyrir á nýjum stað. Honum líst vel á komandi tíma.

„Við erum þessa daganna í húsaleit og að koma okkur fyrir. Þetta leggst vel í mig. Þetta er frábær staðsetning á Ítalíu og það er gaman að prufa mið-Ítalíu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×