Erlent

Draga úr vægi ofurfulltrúa sem gerðu stuðningsmönnum Sanders lífið leitt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hillary Clinton og Bernie Sanders öttu kappi í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar 2016.
Hillary Clinton og Bernie Sanders öttu kappi í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar 2016. Vísir/Getty
Flokksstjórn Demókrataflokksins í Bandaríkjunum samþykkti í dag að dregið yrði úr vægi svokallaðra ofurfulltrúa við val á frambjóðanda flokksins í forsetakosningunum. Guardian greinir frá.

Ofurfulltrúarnir eru kjörnir fulltrúar og aðrir framámenn innan flokksins. Hafa þeir frjálst val um hvaða frambjóðenda þeir velja á flokksþingi þegar valið er á milli forsetaframbjóðenda, ólíkt öðrum fulltrúum flokksþingsins sem fylgja úrslitum forkosninga flokksins í ríkjum Bandaríkjanna.

Deilur um vægi ofurfulltrúanna hafa staðið yfir í um tvö ár en stuðningsmenn Bernie Sanders, sem bauð sig fram gegn Hillary Clinton í forkosningum flokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2016, voru mjög ósáttir við vægi ofurfulltrúanna, sem flestir greiddu atkvæði með Clinton.

Clinton hefði reyndar borið sigur úr bítum gegn Sanders án atkvæða ofurfulltrúanna en stuðningsmenn Sanders kvörtuðu yfir því að yfirvofandi stuðningur ofurfulltrúanna hafi gert það að verkum að Clinton hafi litið út fyrir að vera ósigranleg, sem hafi haft áhrif á kosningabaráttu þeirra, Clinton í vil.

Hinar nýjar reglur þýða að ofurfulltrúar fá ekki að greiða atkvæði í fyrstu umferð á vali á forsetaefni Bandaríkjanna á flokksþingi Demókrata, umferðinni sem úrslit ráðast nær oftast í. Ráðist úrslit hins vegar ekki í fyrstu umferð, er þeim frjálst að kjósa í næstu umferðum þangað til úrslit ráðast.

Reglurnar taka gildi strax og munu því hafa áhrif á val Demókrata á forsetaefni fyrir forsetakosningarnar árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×