Fótbolti

Alfreð ekki með Íslandi í fyrstu leikjum Þjóðadeildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð skoraði fyrsta mark Íslands á HM en verður ekki með í næstu leikjum.
Alfreð skoraði fyrsta mark Íslands á HM en verður ekki með í næstu leikjum. vísir/getty
Eric Hamrén, nýr landsliðsþjálfari í fótbolta, tilkynnir í dag hópinn sem að mætir Sviss og Belgíu í fyrstu leikjum Íslands í Þjóðadeildinni. Bein útsending frá fundinum verður á Vísi klukkan 12.45 í dag.

Leikurinn gegn Sviss fer fram í St. Gallen 8. september og bronslið Belga frá HM mætir á Laugardalsvöllinn þremur dögum síðar, þriðjudaginn 11. september.

Hamrén nýtur ekki góðs af því að geta teflt fram Alfreð Finnbogasyni sem er meiddur en það staðfestir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag. Hann er meiddur á kálfa en þessi sömu meiðsli glímdi Alfreð við á síðustu leiktíð.

Alfreð segist hafa vonast til þess að myndi jafna sig í sumarfríinu en svo var ekki. Hann byrjar ekki að æfa með liði sínu Augsburg fyrr en um miðjan september eða eftir að landsleikjafríinu er lokið.

Þetta er mikið áfall fyrir íslenska liðið enda Alfreð verið besti framherji þess undanfarin misseri eftir að Kolbeinn Sigþórsson varð frá að hverfa vegna meiðsla.

Alfreð skoraði þrjú mörk í undankeppni HM 2018 og skoraði svo markið sem að tryggði okkar mönnum sögulegt jafntefli á móti Argentínu á HM í Rússlandi.

Meiðsli Alfreðs þýða að Hamrén gæti gert eitthvað óvænt með fjórða framherjaplássið en fastlega má búast við því að Jón Daði Böðvarsson, Björn Bergmann Sigurðarson og Albert Guðmundsson verði í hópnum í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×