Svona hefst færsla Evu Laufeyjar Kjaran Hermannsdóttur á Facebook þar sem hún opnar sig um fósturmissi í síðustu viku. Eva Laufey á fyrir tvær dætur með Haraldi Haraldssyni.
„Í síðustu viku í miðjum upptökum hjá mér fann ég að eitthvað væri ekki eins og það á að vera, óvenjulegir verkir og fljótlega fór að blæða. Slíkt hafði ekki gerst áður með stelpurnar og því tók mikil hræðsla við, en ég reyndi að láta lítið bera á þar sem ég var með þrjár myndavélar fyrir framan mig. Ég gúgglaði, sendi strax á fólkið mitt og róaðist þegar ég sá að það væri algengt að það blæddi á meðgöngum, engu að síður hljóp ég út beint eftir tökur upp á spítala í skoðun, svona til vonar og vara.“
Leið eins og ég væri að kafna
Eva segir að þar hafi heimsins besta fólk tekið á móti henni.„Ég var skoðuð, þá kom í ljós að það var ekki allt með felldu og enginn hjartsláttur í 10 vikna fóstrinu. Á því augnabliki leið mér eins og ég væri að kafna, reyndi eins og ég gat að halda aftur að tárunum en það tókst ekki. Læknirinn minn útskýrði fyrir mér að þetta væri afar algengt hjá konum og ráðlagði mér að tala um þetta, segja þetta upphátt við fólkið mitt, því rétt eins og hún sagði að ef enginn vissi hvað væri í gangi þá fengi maður ekki viðeigandi stuðning á þessum tímum.“
Hún segir að fósturmissir sé vissulega eitthvað sem hún hafði oft heyrt um.

Eva segir að síðustu dagar hafi verið erfiðir og mikil sorg sé í fjölskyldunni.
„Væntingar og þrár, að syrgja það sem við héldum að væri í vændum. Allskonar tilfinningar hellast yfir mig, ég veit ekki hvað ég er búin að hugsa oft og mikið um hvað ég hefði getað gert betur. Var ég kjáni að ganga upp á fjöll, var ég að hoppa of mikið í leikfimi, var það sushi át eða hvað ég gerði eiginlega rangt í þetta skiptið. Ég veit þó full vel að þetta er ekki mín sök en engu að síður hellist sektarkennd yfir mig og það er hræðileg tilfinning.“
Hetjur
Hún segir að konur sem upplifi þennan hrylling aftur og aftur séu hetjur í hennar augum.„Þrátt fyrir að þetta sé algengt gerir þetta ekki minna sorglegt og erfitt. Við erum svo heppin að eiga tvær dásamlegar stelpur sem hjálpa okkur og minna okkur á hvað við erum heppin. Það er ekki sjálfgefið að verða ólétt og eignast heilbrigð börn. Það er auðveldara að setja á samfélagsmiðla þegar vel gengur og lífið er gott, en lífið er allskonar og allir geta lent í áföllum. Við erum að ganga í gegnum erfitt tímabil og það hjálpar mér að segja frá, ég finn fyrir ákveðnum létti í hvert sinn sem ég segi vinum eða fjölskyldu frá okkar fósturmissi. Við munum komast í gegnum þetta með öllu okkar góða fólki, við erum svo rík að eiga frábæra fjölskyldu, bestu vinina og þar að auki yndislegt samstarfsfólk.“