Fótbolti

Danir tefla fram futsal leikmönnum í Þjóðadeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Eriksen og félagar eru í hörðum deilum við danska knattspyrnusambandið
Eriksen og félagar eru í hörðum deilum við danska knattspyrnusambandið Vísir/Getty
Landsliðshópur Dana fyrir leikinn gegn Wales í Þjóðadeildinni um helgina inniheldur leikmenn í neðri deildunum og futsal-leikmenn.

Danska sambandið á í deilum við A-landsliðsmenn sína vegna ímyndarréttar þeirra og launa fyrir auglýsingar og aðra vinnu á vegum sambandsins.

Í dag staðfesti knattspyrnusambandið að leikmenn úr þriðju og fjórðu deild Danmerkur, ásamt futsal-leikmönnum, séu í hópnum fyrir vináttulandsleik við Slóvakíu og leik í Þjóðadeildinni gegn Wales.

Það er enginn leikmaður úr efstu tveimur deildum Danmerkur í hópnum.

Fimm af þeim leikmönnum sem voru valdir eru landsliðsmenn í futsal og spiluðu fyrir Dani gegn Grænlendingum í landsleik í maí.

Í gær greindi Vísir frá því að þjálfari Dana, Age Hareide, muni ekki stýra danska liðinu. John Jensen, einn leikmannanna úr sigurliði Dana frá EM 1992, stýrir þessum leikmannahópi.

Christian Eriksen, leikmaður Tottenham og ein stærsta stjarna Dana, sagði í tilkynningu frá dönsku leikmannasamtökunum að leikmennirnir væru tilbúnir til þess að framlengja gamla samning sinn við danska sambandið tímabundið og spila þessa leiki.

„Við, allt landsliðið, erum tilbúnir til þess að rétta fram höndina og framlengja gamla samninginn um mánuð. Við viljum spila fyrir Danmörku og bjarga andliti danska fótboltans,“ er haft eftir Eriksen í tilkynningunni.

Ef Danir tefla ekki fram fullmönnuðu liði í þessa tvo leiki gætu þeir átt von á að UEFA setji þá í bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×