Íslenska landsliðið kom saman í dag og hóf æfingar í Schruns í Austurríki fyrir leikinn gegn Sviss í Þjóðadeildinni á laugardag. Guðmundur Benediktsson er mættur til Austurríkis og spjallaði við Kolbein.
Stærsta spurningin sem brennur á vörum allra, hvernig er heilsan?
„Heilsan er mjög góð. Búinn að vera heill núna nánast í átta mánuði fyrir utan í mars og apríl, þannig að þetta er búið að líta vel út og gömlu meiðslin ekki búin að trufla mig,“ sagði Kolbeinn.

„Þegar ég kom aftur til baka í sumar þá tilkynntu þeir mér það að ég mætti fara, finna mér nýtt lið. Staðan hefur verið þannig síðustu tvo mánuði að ég hef verið að leita mér að liði.“
„En ég er ekki búinn að spila í að verða tvö ár svo það er erfitt að finna lið sem vill gambla á mig.“
Félagsskiptaglugginn í Evrópu lokaði um helgina. Leikmenn sem eru samningslausir geta áfram farið á ný mið á frjálsri sölu. Kolbeinn er hins vegar enn samningsbundinn Nantes, það eru tvö ár eftir af þeim samningi.
„Staðan er þannig að ég get ekki farið núna, ekki nema í þær deildir sem eru opnar. Annars þarf ég að bíða fram í janúar.“
Eins og er gerir Kolbeinn ráð fyrir því að fá aftur að æfa með aðalliðinu og það eru engar viðræður við önnur lið í gangi á þessari stundu.
Hann fékk að spila hálftíma í undirbúningsleik með Nantes í sumar en var síðan tilkynnt að hann mætti fara annað eða í varaliðið.

„Bara frábærlega. Það sem ég hef heyrt hvað Freyr og Erik eru að gera er bara mjög jákvætt.“
„Þeir vilja ekki breyta miklu og halda í það góða sem er búið að gera á síðustu árum. Það er mikilvægt að halda strúktúrnum.“
„Hann vill örugglega sjá hvernig liðið er og þekkja menn áður en hann fer að breyta með sínum aðferðum.“
Þegar landsliðshópurinn var tilkynntur sagði Erik Hamren að Kolbeinn væri ekki tilbúinn að byrja en hann sæi tækifærin í að nota Kolbein á síðustu mínútum leikjanna. Er hann tilbúinn í það?
„Já, ég tel mig vera það. Ég tilkynnti honum það að ég væri ekki í leikformi og ekki búinn að spila, eins og hann vissi. Hann spurði mig hvort ég gæti spilað 15-20 mínútur og gæti notað reynslu mína í það. Ég tel mig vera það, þó ég sé kannski ekki í leikformi,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson
Leikur Sviss og Íslands fer fram á laugardaginn, 8. september, og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.