Erlent

Komu að tómum brunahönum við safnið í Ríó

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill eldsmatur var í safninu sem var í húsnæði sem byggt var á 19.öld.
Mikill eldsmatur var í safninu sem var í húsnæði sem byggt var á 19.öld. Vísir/AP
Embættismenn í Brasilíu telja að rekja megi stórbrunann í elsta og mikilvægasta vísinda- og sögusafni Brasilíu, þjóðminjasafni landsins í Rio de Janeiro, til þess að skrúfað hafði verið fyrir stóran hluta af rekstrarféi safnsins. Slökkviliðsmenn komu að tómum brunahönum við upphaf slökkvistarfsins.

Talið er að stærstur hluti minja safnsins hafi orðið að eldinum að bráð en á meðal verðmæta í eigu safnsins voru egypskir fornmunir og sumir af fyrstu steingervingum sem fundust í Brasilíu. Þá var 12 þúsund ára gömul beinagrind af konu í eigu safnsins sem og steingervingar, risaeðlur og loftsteinn sem fannst árið 1784.

„Við fengum aldrei nægjanlegan stuðning,“ sagði Luiz Duerte í samtali við fjölmiðla eftir brunann. Þá hafa brasíliskir fjölmiðlar eftir starfsmanni safnins að yfirmenn safnsins hafi átt í gríðarlegum erfiðleikum við að reyna að ná í fjármagn til þess að reka safnið með sómasamlegum hætti. Yfirvöld í Ríó hafa glímt við talsverða fjárhagserfiðleika undanfarin ár.

Safnið var hluti af ríkisháskólanum í Rio en síðustu ár hefur það verið í niðurníslu. Þá sagði Roberto Robadey, talsmaður slökkviliðsins í Ríó að slökkviliðsmenn hefðu komið að tómum brunahönum þegar slökkvistarf var að hefjast og þurftu þeir því að sækja vatn í nærliggjandi stöðuvatn.


Tengdar fréttir

Ómetanlegt tjón í stórbruna í Brasilíu

Elsta og mikilvægasta vísinda- og sögusafn Brasilíu, þjóðminjasafn landsins í Rio de Janeiro, varð miklum eldi að bráð í nótt, eða í gærkvöldi að staðartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×