Innlent

Gífurleg vinna að baki uppsetningu ljósabúnaðarins sem þurfti að yfirgnæfa dagsbirtuna

Birgir Olgeirsson skrifar
Lýsingin á hátíðarþingfundinum kostaði 22 milljónir króna.
Lýsingin á hátíðarþingfundinum kostaði 22 milljónir króna. Fréttablaðið Anton Brink
Kostnaðurinn við lýsingu á hátíðarfundi Alþingis í sumar hefur vakið upp furðu hjá mörgum en aðstandendur fyrirtækisins Exton, sem sá um lýsinguna, segja hann eiga sér eðlilegar skýringar.

Lýsingin kostaði 22 milljónir króna samkvæmt sundurliðun sem birt var á vef Alþingis um kostnað hátíðarþingfundarins sem var tæpar 87 milljónir króna og fór 40 milljónum fram úr kostnaðaráætlun.

Rikharð Sigurðsson, framkvæmdastjóri Exton, segir í samtali við Vísi að fleiri tugir manna hafi unnið við uppsetningu ljósabúnaðarins á Þingvöllum í rúma viku.

Ekki var um að ræða hefðbundna lýsingu, líkt og sést á tónleikum, heldur var þetta sjónvarpslýsing og þar að auki í dagsbirtu. Það þýddi að flytja þurfti afar öflugan og dýran ljósabúnað á Þingvelli sem var til þess fallinn að yfirgnæfa dagsbirtuna svo að lýsingin myndi sjást í sjónvarpsútsendingunni.

Þá þurfti að kaupa mannskap til að forrita lýsinguna en Exton menn stóðu einnig frammi fyrir þeim vanda að ekki var hægt að flytja búnaðinn með bílum í Lögberg þar sem hátíðarþingfundurinn fór fram.

Notast þurfti við sexhjól til að fara með stóran hluta búnaðarins inn á Þingvelli og var einnig notast við þyrlur til að selflytja búnaðinn yfir á.

„Þetta er miklu umfangsmeiri lýsing en við tónleika. Þetta var í björtu og þá þarf lýsingin að vera mikil svo hún sjáist í sjónvarpi,“ segir Rikharð í samtali við Vísi.

Exton hefur komið að Kristnihátíðinni og séð um ljós og hljóð á stórtónleikum Justin Bieber og Justin Timberlake í Kórnum í Kópavogi. Auðveldara er að lýsa slíka tónleika upp því lýsingin sést mun betur í rökkri. Á hátíðarþingfundurinn fór fram undir berum himni að sumri til og því þurfti mikla lýsingu til að yfirgnæfa dagsbirtuna.

Stilla þurfti upp pöllum svo ljósin hefðu traustar undirstöður í móanum. Innifalið í þessum kostnaði var einnig uppsetning á þaki á sviðinu til að koma fyrir ljósum og voru kaplar upp á fleiri kílómetra lagðir við uppsetningu á þessum ljósum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×